Innlent

Þjófar á ferð í höfuðborginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Egill

Nokkuð var um þjófnaði á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. 

Lögreglu barst meðal annars tilkynning um konu sem var stöðvuð þegar hún var að yfirgefa verslun í Hafnarfirði en hún reyndist hafa á sér vörur fyrir um 23 þúsund krónur sem hún hafði ekki greitt fyrir.

Í Garðabæ var tilkynnt um þjófnað þar sem farið hafði verið inn í geymslur í fjölbýlishúsi og verðmætum stolið. Þá var hurð spennt upp á Kjalarnesi og verkfæri tekin ófrjálsri hendi.

Í póstnúmerinu 108 var farið í veski hjá konu á meðan hún var að vinna og farsíma, greiðslukorti, lyklum og fleiru stolið. Konan náði að hafa uppi á þjófnum, sem var þegar búinn að nota greiðslukortið.

Í Hlíðahverfi var tilkynnt um konu sem hafði verið staðinn að innbroti í bifreið. Konunni var haldið þar til lögregla mætti á svæðið en hún er grunuð um líkamsárás og eignaspjöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×