Fótbolti

Vonbrigðin voru Lukaku íþyngjandi: „Hvað fór úrskeiðis?“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Chelsea Training Session LONDON, ENGLAND - AUGUST 18: Romelu Lukaku of Chelsea holds his number 9 shirt after a training session at Stamford Bridge on August 18, 2021 in London, England. (Photo by Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images)
Chelsea Training Session LONDON, ENGLAND - AUGUST 18: Romelu Lukaku of Chelsea holds his number 9 shirt after a training session at Stamford Bridge on August 18, 2021 in London, England. (Photo by Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images) Darren Walsh/Chelsea FC via Getty Images

Romelu Lukaku, nýr framherji Chelsea á Englandi, kveðst ákveðinn í því að vinna titla með félaginu á komandi árum. Hann segir fyrri tíma sinn hjá félaginu hafa tekið mikið á en hann hefur stutt félagið frá barnæsku.

Lukaku varð dýrasti leikmaður í sögu Chelsea, og sá næst dýrasti sem enskt úrvalsdeildarlið hefur keypt, þegar félagið borgaði Internazionale á Ítalíu 97,5 milljónir punda fyrir hann í sumar.

Hann gekk þá í raðir félagsins í annað sinn á ferlinum en Chelsea fékk hann sem táning frá uppeldisfélaginu Anderlecht fyrir tíu árum síðan. Í viðtali við Sky Sports segir hann hafa verið erfitt að yfirgefa Chelsea árið 2014 eftir fjögur strembin ár hjá félaginu.

„Það er eitthvað sem ég þurfti að bera á bakinu í mörg ár. Ég nýtti það sem hvatningu á þeim tíma, en spurði sjálfan mig einnig spurninga eins og 'hvað fór úrskeiðis?'. Ég þurfti að lifa með því í mörg ár og það er ástæðan fyrir því að stundum gat ég verið full reiður eða í vörn í viðtölum.“

„Á einum tímapunkti ákvað ég að það væri betra að fara eitthvert annað og sjá hlutina frá nýju sjónarhorni. Að fara til Ítalíu var það besta sem ég gat gert á þeim tímapunkti.“ segir Lukaku sem lék aðeins tíu deildarleiki fyrir Chelsea frá 2011 til 2014 en gerði vel á láni hjá bæði West Bromwich Albion og Everton áður en hann var keyptur til síðarnefnda liðsins. Þaðan fór hann til Manchester United, hvaðan hann fór til Inter árið 2019.

Ræddi nýlega við Drogba og vill feta í hans fótspor

Lukaku hefur ávallt verið stuðningsmaður Chelsea og gat því ekki hafnað tækifærinu að semja við félagið á ný. Hann segist ætla að feta í fótspor átrúnaðargoðs síns Didier Drogba, sem var samherji hans hjá Chelsea á sínum tíma.

Drogba vann ensku úrvalsdeildina og enska bikarinnn fjórum sinnum hvort með Chelsea auk þess að vinna Meistaradeild Evrópu. Hann skoraði 104 deildarmörk fyrir liðið á tveimur skeiðum með Chelsea; frá 2004 til 2012 og frá 2014 til 2015.

Drogba var frábær hjá Chelsea á sínum tíma.Nordic Photos/Getty Images

„Við ræddum saman fyrir nokkrum dögum og ræddum þennan tíma, og um þær framfarir sem ég hef náð og hvað ég þarf að halda áfram að bæta - að viðhalda sama hungrinu,“

„Það sem einkennir Didier er að hann er hugsar vel um smáatriðin. Thierry Henry [sem hefur unnið með Lukaku hjá belgíska landsliðinu] er það líka og það eru smáatriðin sem gera gæfumuninn. Við höfum talað um einstaklingsæfingar sem ég geri, hvert markmið hverrar æfingar er og þar fram eftir götunum, en einnig um að sigra því það skiptir höfuðmáli.“„

„Hann [Drogba] er skilgreiningin á sigurvegara og það er það sem ég vil hjá þessu félagi.“ segir Lukaku.

Lukaku gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Chelsea eftir endurkomuna er liðið sækir Arsenal heim í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×