Innlent

Á­kærður fyrir stór­fellt fíkni­efna­laga­brot og peninga­þvætti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. september.
Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. september. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Hann er ákærður fyrir að hafa meðal annars staðið að innflutningi tæpra 660 gramma af kókaíni, fyrir vörslu fíkniefna og peningaþvætti. 

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa miðvikudaginn 22. apríl 2020 staðið að innflutningi á samtals 658,36 grömmum af kókaíni, með 84 prósent meðalstyrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Maðurinn flutti fíkniefnin til Íslands sem farþegi með flugi frá Lundúnum til Keflavíkurflugvallar og hafði falið efnin innvortis.

Hann er jafnframt ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum, á Keflavíkurflugvelli þann sama dag, 0,89 grömm af maríhúana sem tollverðir fundu við leit í farangri ákærða. 

Maðurinn er einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa tekið við, nýtt, umbreytt og/eða aflað sér til tekna með sölu og dreifingu ávana- og fíkniefna eða með öðrum ólöglegum leiðum. 

Hann hafi með því aflað sér allt að rúmum 12,3 milljónum króna, sem hann notaði meðal annars til eigin framfærslu og til kaupa á erlendum gjaldeyri. Fjárhæðin skiptist í 4.963.974 krónur, vegna óútskýrðra tekna á bankareikningi og 7.335.796 krónur vegna kaupa á gjaldeyri með reiðufé. 

Þá hafi maðurinn einnig haft í vörslum sínum 75,82 grömm af kannabislaufum, sem fundust á honum við leit á Bifröst í Borgarfirði í júlí 2020. 

Héraðssaksóknari krefst að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að fíkniefnin verði gerð upptæk auk eins lítra af áburði, tveimur spennubreytum og tveimur tjöldum. 

Málið verður þingfest þann 9. september í Héraðsdómi Reykjavíkur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×