Skoðun

List að læknis­ráði

Brynhildur Björnsdóttir og Orri Páll Jóhannsson skrifa

Heilbrigðiskerfið er landsmönnum ofarlega í huga fyrir þessar kosningar og fyrirbyggjandi aðgerðir til að bæta lýðheilsu eru mikilvægar til að létta álagið. Skýrsla frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO frá 2019 sýnir svo ekki verður um villst hversu góð áhrif listir hafa á lýðheilsu og lífsgæði. Byggt var á 900 rannsóknum sem allar sýna það sama: listneysla bætir ónæmiskerfið, styrkir hjartað og æðarnar, léttir lund, vinnur gegn streitu og bætir sálræna líðan.

Listir og menning hafa svo miklu og fjölbreyttu hlutverki að gegna í samfélagi að það er í raun sama hvar er borið niður, allsstaðar má sjá mikilvægi skapandi greina. Félagslegt og menningarlegt gildi listsköpunar er óumdeilt, listir eru stórkostleg landkynning og skapa efnahagsleg, tilfinningaleg og menningarleg verðmæti, veita ný sjónarhorn og endurspegla ríkjandi strauma og stefnur. Listir eru alhliða mikilvægar fyrir samfélög sem vilja vera gildandi meðal samfélaga. Þá eru listir og hönnunargreinar ómissandi hluti af annarri nýsköpun svo sem í tölvuleikjasmíði og framsetningu hugverka og uppfinninga.

Það gefur því auga leið að samfélag sem vill gera sig gildandi meðal samfélaga hlúir að listum sínum og listafólki.

Vinstrihreyfingin - grænt framboð setti fyrir þessar kosningar fram ítarlega stefnu um menningu og listir. Þar er meðal annars kveðið á um að styðja af krafti við menningarstofnanir og faglega úthlutunarsjóði, efla listnám á öllum skólastigum og gera LHÍ að opinberri stofnun sem tekur sambærileg skólagjöld af nemendum og Háskóli Íslands. Við í VG viljum auka jöfnuð og að öll eigi þess kost að stunda listnám á háskólastigi óháð efnahag.

Menning og listir hafa mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna, þær eru veigamikil stoð í fjölbreyttu atvinnulífi og hagræn áhrif þeirra skipta verulegu máli. Leggja þarf aukna áherslu á að menningarstarfsemi sé fjárfesting til framtíðar, ávísun á aukna verðmætasköpun og fjölbreytt og dýrmæt störf. Efla þarf launasjóði listamanna og verkefnasjóði listgreina ásamt því að tryggja listamönnum gott starfsumhverfi og að hið opinbera greiði þeim fyrir vinnu sína. Við í VG viljum gera varanlegar breytingar til að fjölga starfslaunum listamanna.

Brýnt er að styðja bæði við menningarstofnanir og sjálfsprottna menningarstarfsemi með fjármagni og sterkri stjórnsýslulegri umgjörð. Fjárveitingar þurfa að byggja á faglegum forsendum og verkefni metin af fagaðilum.

Þá er einnig mikilvægt að innleiða samþykkta menningarstefnu fyrir Ísland frá árinu 2013 með skýrri aðgerðaáætlun.

Menning, listir og hönnun eru vaxandi stoð í íslensku samfélagi. Tímabært er að endurskoða stjórnsýslulega stöðu þessara greina, styrkja hana og auka skilvirkni hennar. Til að tryggja menningu, listum og skapandi greinum stöðugleika er mikilvægt að þessar greinar hafi sjálfstæða rödd í stjórnsýslunni og það er best tryggt með stofnun ráðuneytis menningar og skapandi greina.

Í skýrslu WHO kemur fram að mælt er með því að heilsugæslulæknar geti ávísað listneyslu og ástundun við ýmsum sjúkdómum. Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill ávísa blómstrandi menningar- og listalífi fyrir samfélagið allt og þannig bæta lífsgæði og hamingju allra.Með öflugri menningarstarfsemi fjárfestum við í framtíðinni og aukinni velsæld. Það viljum við í VG gera.

Brynhildur skipar 4. sæti og Orri Páll 2. sæti á lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður.  




Skoðun

Sjá meira


×