Sport

Skoraði úr víti með hægri | Jafnfættar vítaskyttur

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Perisic á punktinum
Perisic á punktinum EPA-EFE/CLAUDIO PERI

Ivan Perisic, leikmaður Inter Milan, skoraði fyrsta mark liðsins í tapi fyrir Lazio á útivelli í gær. Markið var sérstakt því Perisic skoraði með hægri fæti, en hann skoraði úr víti með vinstri fæti á móti Frosinione í apríl 2019.

Perisic er fyrsti leikmaðurinn í Serie A til þess að skora úr vítum með báðum fótum síðan 2004 þegar tölfræði um með hvaða fæti leikmaður skorar var fyrst tekin saman. Hann er þó alls ekki sá eini sem hefur sýnt af sér þessa fjölhæfni.

Sá sem var hvað frægastur fyrir slíka jafnfætni var þjóðverjinn og vinstri bakvörðurinn Andreas Brehme. Brehme, sem lék meðal annars með Bayern Munchen og Inter Milan, er þekktur fyrir að hafa einn allra besta vinstri fót sögunnar en hægri fóturinn var ekkert slor heldur. Brehme, sem skoraði úr víti á móti Mexíkó á heimsmeistaramótinu 1986 með vinstri fæti skoraði frægt sigurmark á 85. mínútu í úrslitaleiknum á heimsmeistaramótinu 1990 úr víti. Með hægri fæti.

Í ensku úrvalsdeildinni hafa tveir leikmenn gert þetta. Bobby Zamora skoraði úr nokkrum vítum í deildinni, flestum með vinstri fæti. Hann tók þó óvænt víti með Fulham gegn Newcastle árið 2012 með hægri og skoraði. Hinn leikmaðuriinn er hinn síungi Obafemi Martins sem skoraði einungis úr tveimur vítum í deildinni. Eitt með hægri á móti Reading árið 2006 og eitt með vinstri á móti Birmingham árið 2007.

Santi Cazorla á sennilega skemmtilegustu útgáfuna. Hann skoraði með hægri fæti með svokölluðum Panenka stíl úr víti fyrir Arsenal gegn Newcastle í desember 2014. Hann endurtók svo leikinn fyrr á þessu ári sem leikmaður Al Sadd í Katar á móti erkifjendunum í Al Arabi. Panenka spyrna, en í þetta sinn með vinstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×