Erlent

Til­­kynnti um fjögurra vikna út­­göngu­bann og bað bólu­­setta af­­sökunar

Atli Ísleifsson skrifar
Krisjanis Karins er forsætisráðherra Lettlands. Hann ávarpaði þjóð sína á mánudagskvöldið.
Krisjanis Karins er forsætisráðherra Lettlands. Hann ávarpaði þjóð sína á mánudagskvöldið. Getty

Forsætisráðherra Lettlands tilkynnti á mánudag um fjögurra vikna útgöngubann vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í landinu síðustu daga. Á sama tíma bað hann bólusetta landsmenn afsökunar á að þurfa að grípa til þessara aðgerða, en bólusetningarhlutfall í Lettlandi er eitt það lægsta í ríkjum ESB.

Forsætisráðherrann Krisjanis Karins sagði á fréttamannafundi að heilbrigðiskerfi landsins væri undir svo miklu álagi vegna faraldursins að stjórnvöld telji nauðsynlegt að grípa aftur til harðra aðgerða. Eina leiðin út úr stöðunni væri að koma á útgöngubanni og að bólusetja landsmenn í auknum mæli.

Karins ávarpaði þjóð sína eftir neyðarfund ríkisstjórnarinnar á mánudaginn.

Einungis 54 prósent fullorðinna í Lettlandi eru nú fullbólusettir og er hlutfallið umtalsvert lægra en meðalhlutfallið hjá ríkjum ESB, það er um 74 prósent.

Karins nýtti tækifærið og bað bólusetta í landinu afsökunar á að þeir þurfi að leggja á sig þessar hertu aðgerðir. „Ég verð að biðja alla bólusetta afsökunar á að þeir þurfi að leggja á sig þessar byrðar. Og ég veit að það er erfitt. En þetta verður að vera svona, þar sem aðrar manneskjur er ekki bólusettar. Og ef við berum ekki þessar byrðar þá munum við öll líða fyrir,“ sagði Karins.

Samkvæmt nýju reglunum verður skólum, veitingastöðum, verslunum og menningarstofnunum gert að loka. Einungis matvöruverslunum og apótekum verður heimilt að hafa opið. Þá verður útgöngubanni framfylgt milli átta á kvöldin og til fimm á morgnana.

Nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 1.313,8 í landinu, samanborið við 186,0 hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×