Myndbandið birti bílstjórinn á samfélagsmiðlinum TikTok og eftir að fólk hóf að ræða það á samfélagsmiðlum, barst Strætó bs. fjöldi ábendinga um málið.
Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó bs. segir að málið sé komið í formlegan farveg.
„Við horfum á þetta sem algert dómgreindarleysi. Hann er þarna að setja alla í sínu nærumhverfi í stórhættu, því það er stórhættulegt auðvitað að vera í símanum á meðan þú ert að keyra. Það er alveg skýrt hérna í reglunum, þú átt ekki að vera í símanum á meðan þú ert að keyra, sérstaklega á svona stóru og þungu ökutæki,“ segir Guðmundur.

Máli bílstjórans hefur þegar verið vísað til deildarstjóra innan Strætó og er nú að sögn Guðmundar komið í réttan farveg innanhúss. Hann segir að bílstjórinn fái ekki að aka á meðan farið er yfir málið með honum.
Hvernig má sjá fyrir sér framtíð bílstjóra sem gerir svona?
„Það er allur gangur á því. Það fer eftir sögu bílstjórans líka. Ég get ekki farið út í það í fjölmiðlum hvað verður gert hér en fólk hefur verið áminnt og fólk hefur jafnvel verið rekið úr starfi fyrir að vera í símanum. Þannig að við leyfum þessu bara að fara rétta leið,“ segir Guðmundur.
Myndbandið gæti einnig orðið að lögreglumáli, enda liggur fjörutíu þúsund króna sekt við að nota fjarskiptabúnað undir stýri. Sú sekt var snarhækkuð fyrir um tveimur árum enda útbreitt vandamál að síminn trufli ökumenn við akstur.
Breytt 22.10: Upphaflega sagði í fréttinni að bílstjórinn fengi að aka þrátt fyrir myndbirtinguna en rétt er að hann ekur ekki fyrr en skoðun á máli hans er lokið.