Erlent

Kornabörn fórust í eldsvoða á indversku sjúkrahúsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Maður ber barn út af barnaspítala í Bhopal í gærkvöldi.
Maður ber barn út af barnaspítala í Bhopal í gærkvöldi. Vísir/AP

Fjögur ungbörn fórust þegar eldur kviknaði á nýburadeild sjúkrahúss í borginni Bhopal á Indlandi í gærkvöldi. Nokkur börn slösuðust til viðbótar en ekki liggur fyrir hversu mörg þau eru og hversu alvarleg sár þau eru.

Eldur kviknaði á þriðju hæð Kamla Nehru-sjúkrahússins í Bhopal. Á meðan slökkviliðsmenn börðust við eldinn reyndu læknar og hjúkrunarfræðingar að bjarga því sem bjargað varð. Af fjörutíu börnum á ungbarnadeildinni tókst að bjarga 36, að sögn AP-fréttastofunnar.

Rannsókn er hafin á upptökum eldsins en líklegt er talið að skammhlaup hafi valdið honum. Það er algengasta orsök eldsvoða á ríkisreknum sjúkrahúsum á Indlandi en þeir hafa verið mýmargir undanfarin misseri, að sögn New York Times.

Að minnsta kosti ellefu manns fórust þegar eldur kviknaði á gjörgæsludeild Covid-19-sjúklinga í Maharashtra-ríki í síðustu viku og í vor fórust að minnsta kosti átján manns á Covid-göngudeild sjúkrahúss í Gujarat-ríki.

Ríkisstjórnir vanrækja að framfylgja byggingareglugerðum og gæta þess ekki slökkvibúnaður sé í opinberum byggingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×