Skoðun

Háskóli Íslands og landbúnaður

Erna Bjarnadóttir skrifar

Háskólaprófessorinn Þórólfur Matthíasson (ÞM) er sérlegur áhugamaður um landbúnað eins og glöggt kom fram í þættinum Á Sprengisandi um helgina. Því miður gat ég ekki þegið boð um að sitja þáttinn með honum þar sem ég var búin að lofa mér annað. Áður hafði hann ritað sérstaka grein á Kjarnann, sjá hér https://kjarninn.is/skodun/verkefnastjori-ms-skodar-styrki/, til að svara athugasemdum og eftir atvikum ábendingum sem ég hafði sent Vísindavefnum í tilefni af svar hans á vefnum sjá, https://www.visindavefur.is/svar.php?id=82059. Inn í það þvælir hann athugasemdum sem ég hafði ritað við grein sem Kjarninn birti (sjá hér https://kjarninn.is/skodun/fyrirsagnagledi-um-landbunad-hver-er-kjarni-malsins/) og hafði unnið upp úr fyrrnefndu svari.

Athugasemdir við umfjöllun um landbúnað

Við þessi skrif og ummæli sem Þórólfur lét falla í fyrrnefndum þætti vil ég gera fáeinar athugasemdir án þess að öll þau atriði sem nefna má, séu ávörpuð. Hér er um tvo punkta að ræða – annars vegar um form (hismi) og hins vegar um efnisatriði (kjarna):

Um hismið:

1.Grein ÞM hefst á að gera lítið úr athugasemd minni við fyrirsögn fréttar Kjarnans um málið. Grein mín hafi birst löngu eftir að fyrirsögnin var leiðrétt. Lítum nú nánar á þetta. Í athugasemd Kjarnans sjálfs við grein mína stendur að fyrirsögnin hafi verið leiðrétt kl. 14.14 þennan dag eftir ábendingu greinarhöfundar. Greinina sendi ég enda inn kl. 14.00 þennan dag. Kjarninn sjálfur hefur svo ekki fyrir því að benda á þetta við birtingu greinar ÞM. Hér gildir því greinilega lögmálið að betra er að veifa röngu tré en öngvu.

2.Fyrrnefnt svar á Vísindavefnum birtist þann 9. nóvember sl. Þann 10. nóvember sl. sendi ég nokkrar ábendingar til ritstjóra Vísindavefsins. Með þessu var auðvitað ætlun mín að eiga siðuð samskipti um efni svarsins en ekki standa í ritdeilum sem kryddaðar yrðu með rangfærslum samanber fyrri ábendingu.

3.Eftir það rekur ÞM það sem hann kallar „aðfinnslur“. Tölvupóstur minn til Vísindavefsins hljóðaði hins vegar svona: „Meðfylgjandi eru efnislegar ábendingar við svar birt á Vísindavefnum þann 9. nóvember sl.“ Hnútukast ÞM dæmir sig sjálft að mínu mati.

Um kjarnann:

4.Efnislegar ábendingar ÞM í tæplega 900 orða grein nema svo 178 orðum. Þar segir ÞM orðrétt: „Í kafla sem ber yfir­skrift­ina „Hvernig ber að skilja aðferða­fræði OECD?“ full­yrðir EB að aðferða­fræði OECD dugi ekki til að meta vergan og hreinan stuðn­ing við land­bún­að. Svo segir EB: „....Vita­skuld eru þetta aldrei þau verð sem neyt­endur standa and­spæn­is....“. Þarna er lík­lega kjarni gagn­rýni EB á aðferða­fræði OECD að ræða. En málið er að OECD er í þessu til­felli ekki að meta stuðn­ing við neyt­endur eins og EB lætur liggja að, heldur stuðn­ing við fram­leið­end­ur. Og þá stendur þessi aðferða­fræði fylli­lega fyrir sín­u!“

5.Hér birtist misskilningur af hálfu ÞM. Í grein minni gagnrýndi ég ekki aðferðafræði OECD, heldur framsetningu hans á upplýsingum frá OECD. Sá mælikvarði OECD sem hér er til umfjöllunar er kallaður „Market price support“. Stuðningi við verð til framleiðenda. Stuðningur við markaðsverð er metinn sem = VP (verðmæti afurða á innanlandsverði til framleiðenda) - BP (innflutningsverð á mjólk sjá viðauka 4.1 í handbók OECD) x QP (magn afurðar hér mjólk sem selt er á innanlandsmarkaði).

6.Í grein minni lýsti ég þessu svona: „Við mat á við­mið­un­ar­verði t.d. mjólkur á heims­mark­aði er byggt á heims­mark­aðs­verði á smjöri og und­an­rennu­dufti. Vita­skuld eru þetta aldrei þau verð sem neyt­endur standa and­spænis enda verið að meta til­færslur til fram­leið­enda en ekki kostnað neyt­enda. Hvergi er hér minnst á stuðning við neytendur eins og ÞM gerir mér upp. Einungis er verið að leitast við að útskýra að hér er verið að meta ígildi þessa stuðnings fyrir móttakendur hans, þ.e. bændur.

7.Sú hugmyndafræði að kalla stuðning við markaðsverð til bænda, sem metinn er með aðferðum OECD, opinber útgjöld á Íslandi er heimatilbúningur ÞM. Opinber útgjöld eru útgjöld ríkis og sveitarfélaga til málaflokka eins og í þessu tilviki til landbúnaðar. Að hve miklu leyti tekjur bænda eru hærri vegna tolla á búvörur er metin stærð sem ekki fellur undir útgjöld þessara aðila og þar af leiðandi ekki talin fram í þjóðhagsreikningum.

Á Sprengisandi

Þórólfur lét gamminn geisa á Sprengisandi á sunnudaginn, enda getur sprettfærið verið gott þar. Það á ekki síst við séu menn einir á ferð og enginn þvælist í veginum, hvorki tófa né útilegumaður.

Þegar hann hins vegar lýsti vanþóknun sinni á því að meiru væri eytt í niðurgreiðslur á eina rollu en gamlamenni, áttaði ég mig á að eflaust er manninum ekki alvara með öllu sem hann lætur frá sér fara.

Sú framsetning sem háskólaprófessorinn beitir í riti og ræðu er aðfinnsluverð. Það hefur grundvallarþýðingu fyrir íslenskan landbúnað að fulltrúar háskólasamfélagsins fari rétt með þegar viðmiðunartölur frá erlendum stofnunum og fullyrðingar um stöðu landbúnaðar eru settar fram opinberlega á vegum Háskóla Íslands og fulltrúa hans.

Höfundur er hagfræðingur og verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.




Skoðun

Sjá meira


×