Í úttektinni kemur enn fremur fram að fjöldi íbúa 67 ára og eldri muni tvöfaldast á næstu þrjátíu árum samkvæmt mannfjöldaspá. Slík fjölgun leiði óhjákvæmilega til talsvert þyngri kröfu á sveitarfélögin um nærþjónustu við borgarana. Íbúum á vinnualdri fjölgi aðeins um 10 prósent á sama tíma. Breytt íbúasamsetning muni reyna mjög á þolrif íslensks samfélags og sérstaklega á smærri sveitarfélög.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur undir þessa gagnrýni. Hann segir sveitarfélögin alltof mörg og veik.
„Það hefur legið fyrir lengi og blasir við öllu venjulegu fólki.
Þetta hefur veikt þjónustu og stjórnsýslu gagnvart íbúum í dreifðum byggðum landsins. Veik sveitarfélög eiga tvímælalaust þátt í því hversu ör og mikill flutningur hefur verið frá dreifbýli í þéttbýli og frá landsbyggðum til höfuðborgarsvæðisins.”
Borgarstjóri segir kjarkleysi í pólítíkinni vandann
Úttekt SA færir rök fyrir því að minni sveitarfélög muni einfaldlega ekki standast þolraunina samhliða minnkandi skatttekjum. SA segja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga halda litlu sveitarfélögunum gangandi og að Samtök íslenskra sveitarfélaga leiki lykilhlutverk í viðhaldi þessa kerfis smárra sveitarfélaga með gjaldfrjálsri sérfræðiráðgjöf.
Dagur segir málið flóknara en svo.
„Það er eingöngu vegna kjarkleysis í pólítíkinni og íhaldssemi í sumum minni sveitarfélögum að ekki hefur verið tekið á þessu. Í hvert skipti sem átt hefur að hreyfa alvöru breytingum hafa ráðherrar og þingið lyppast niður.
Þó vita allir sem vilja að færri og sterkari sveitarfélög eru forsenda öflugrar þjónustu fyrir heimafólk og forsenda þess að stefna um sterkari byggðir gangi upp,” segir hann.
Samkvæmt úttektinni nema framlög Jöfnunarsjóðsins 15 prósent af skatttekjum sveitarfélaga að jafnaði, en fara stigvaxandi hlutfallslega eftir því sem þau eru fámennari. Árið 2019 námu framlög jöfnunarsjóðs 7,5 prósent af tekjum þriggja stærstu sveitarfélaganna en 23 prósent tekna hinna.
Reksturinn muni einungis þyngjast
Íbúaspá Byggðastofnunar gerir enn fremur ráð fyrir að íbúum átta stærstu sveitarfélaganna fjölgi um tæplega 30 prósent og íbúum minni sveitarfélaganna 61 fækki um 10 prósent á næstu þremur áratugum. Mikil fækkun íbúa í minni sveitarfélögunum mun þannig auka á vanda þeirra svo um munar, draga úr skatttekjum og möguleikum á að veita íbúum sínum lögbundna þjónustu.
„Þó að vilji yfirvalda hafi lengi staðið til þess að fækka sveitarfélögum hafa áætlanir um sameiningar ekki gengið sem skyldi.
Enda eru enn til staðar þættir í hvatakerfi sveitarfélaga, á borð við Jöfnunarsjóð, sem draga úr fjárhagslegum hvata til að skapa aukið hagræði með sameiningum.
Auk þess veitir Samband íslenskra sveitarfélaga sérfræðiþjónustu til sveitarfélaganna, gjaldfrjálst,” segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.
„Flest íslensk sveitarfélög eru nú þegar langt undir hagkvæmri stærð og með breyttri íbúasamsetningu mun rekstur smærri sveitarfélaga koma til með að þyngjast enn frekar. Það er því ljóst að það þarf að endurskoða hvatakerfi þeirra heildstætt svo hægt sé að stuðla að sameiningum. Að öðrum kosti verður niðurgreiðsla skattgreiðenda á ósjálfbærum rekstri sífellt kostnaðarsamari.”