Erlent

Hættir við boðaðar breytingar á land­búnaðar­kerfinu eftir mót­mæli

Atli Ísleifsson skrifar
Bændur í landinu sögðu að boðaðar breytingar myndu hafa mjög neikvæð áhrif á afkomu þeirra og að stórir einkaaðilar myndu leggja undir sig markaðinn.
Bændur í landinu sögðu að boðaðar breytingar myndu hafa mjög neikvæð áhrif á afkomu þeirra og að stórir einkaaðilar myndu leggja undir sig markaðinn. AP

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur tilkynnt að hann hafi dregið þrjú lagafrumvörp til baka – frumvörp sem ætlað var að gera róttækar breytingar á landbúnaðarkerfi landsins. Hörð mótmæli hafa staðið í landinu vegna boðaðra breytinga í um ár.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að þúsundir bænda hafi komið sér fyrir í tjaldbúðum á jaðri höfuðborgarinnar Delí síðan í nóvember á síðasta ári til að mótmæla fyrirhuguðum breytingum. Tugir þeirra hafi látist í búðunum, ýmist vegna mikils hita, kulda eða Covid-19.

Bændur í landinu sögðu að boðaðar breytingar myndu hafa mjög neikvæð áhrif á afkomu þeirra og að einkaaðilar myndu leggja undir sig markaðinn. Modi sagði hins vegar breytingarnar nauðsynlegar til að nútímavæða landbúnaðarkerfi landsins.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, segir að stjórnvöldum hafi ekki tekist að sannfæra bændur um ágæti breytinganna.EPA

Tilkynning Modis í dag markar mikil þáttaskil þar sem stjórnvöld hafa ekki haft neitt frumkvæði að viðræðum við fulltrúa bænda síðustu mánuði. Þá höfðu ráðherrar í ríkisstjórninni sagt að ekki stæði til að hverfa frá fyrirhuguðum breytingum.

Bændur hafa fagnað tilkynningu Modis og segja að um mikinn sigur sé að ræða. Fréttaskýrendur segja að komandi kosningar í bæði Punjab og Uttar Pradesh – sem bæði eru mikil landbúnaðarhéröð – hafi hins vegar þvingað stjórn Modis til að hverfa frá boðuðum breytingum.

Modi sagði í ávarpi til þjóðarinnar í morgun að með frumvörpunum hafi verið ætlað styrkja stöðu smábænda. Stjórninni hafi hins vegar mistekist að sannfæra bændur um ágæti breytinganna og því hafi verið ákveðið að draga frumvörpin til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×