Innherji

Vigdís lagði til að víkja Baldri úr nefndum og kaus sjálfa sig í staðinn

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Baldur Borgþórsson og Vigdís Hauksdóttir störfuðu saman í borgarstjórn áður en Baldur sagði sig úr Miðflokknum. Á borgarstjórnarfundi í kvöld tók Vigdís sæti í þeim ráðum þar sem Baldur átti sæti.
Baldur Borgþórsson og Vigdís Hauksdóttir störfuðu saman í borgarstjórn áður en Baldur sagði sig úr Miðflokknum. Á borgarstjórnarfundi í kvöld tók Vigdís sæti í þeim ráðum þar sem Baldur átti sæti.

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, tók sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði auk umhverfis- og heilbrigðisráði á borgarstjórnarfundi í kvöld í stað varaborgarfulltrúa síns, Baldurs Borgþórssonar. 

Baldur sagði sig úr flokknum vegna deilna þeirra á milli á dögunum en hugðist þó klára kjörtímabilið sem lýkur í maí á næsta ári. Þar hefur greinilega orðið breyting á.

Vigdís situr eftir skiptin í talsvert mörgum ráðum, en hún er fyrir aðalmaður í íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis og á sæti í fulltrúaráði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þá er hún varamaður í velferðarráði og áheyrnarfulltrúi í forsætisnefnd, borgarráði og skipulags- og samgönguráði borgarinnar. 

Kosið var um breytingarnar á fundinum og þær samþykktar. Oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn, Kolbrún Baldursdóttir, var kosin varamaður Vigdísar í ráðin.

Baldur á þá eftir borgarstjórnarfundinn í kvöld ekki sæti í neinni nefnd á vegum borgarinnar sem hefur þær afleiðingar að laun hans lækka sem því nemur, en hér má lesa sér til um launakjör borgarfulltrúa.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×