Erlent

Formaður herforingjaráðs Indlands fórst í þyrluslysi

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldur kviknaði í þyrlunni eftir að hún brotlenti en talið er að hún hafi brotlent vegna þoku.
Eldur kviknaði í þyrlunni eftir að hún brotlenti en talið er að hún hafi brotlent vegna þoku. AP/Bangalore New

Bipin Rawat, formaður herforingjaráðs Indlands, dó í þyrluslysi á Indlandi í morgun. Madhulika Rawat, eiginkona hans, og ellefu aðrir fórust einnig í slysinu. Einn lifði af en er á sjúkrahúsi í alvarlegu ástandi með brunasár víðsvegar um líkamann.

Hópurinn var í herþyrlu sem brotlenti nærri bænum Coonoor á Indlandi. Verið var að fljúga með herforingjann til herskóla þar sem hann ætlaði að ávarpa nemendur og starfsmenn þegar þyrlan brotlenti í gili í miðjum frumskógi.

Þyrlan var af gerðinni Mi-17 og framleidd í Rússlandi. Herafli Indlands á tugi þeirra og eru ær meðal annars notaðar til að flytja háttsetta herforingja og ráðherra um landið.

Bipin Rawat, formaður herforingjaráðs Indlands, var 63 ára gamall.AP

Talið er mögulegt að þyrlan hafi brotlent vegna veðurs en það hefur ekki verið staðfest samkvæmt Times of India. Mikil þoka var á svæðinu þar sem þyrlan brotlenti og skyggni takmarkað.

Eldur kviknaði þar sem þyrlan brotlenti og samkvæmt frétt Reuters reyndist erfitt að bera kennsl á líkinn vegna þess hve illa sum þeirra voru brunnin.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, skipaði Rawat, sem var 63 ára gamall, sem formann herforingjaráðsins en það ráð var stofnað til að auka samhæfni hers, flota og flughers Indlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×