Innlent

Blaða­manna­fé­lag Ís­lands gagn­rýnir átta milljóna króna lækkun styrkja

Árni Sæberg skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands Vísir/Vilhelm

Blaðamannafélag Íslands hefur sent inn umsögn um fjárlagafrumvarpið sem nú er í meðferð Alþingis. Þar hvetur félagið fjárlaganefnd til að endurskoða fyrirætlanir um tveggja prósenta lækkun framlags til styrkja til einkarekinna fjölmiðla.

Þá bendir félagið á að á sama tíma og stefnt er að lækkun styrkja til einkarekinna fjölmiðla er stefnt að 420 milljóna króna hækkun á framlögum til Ríkisútvarpsins.

BÍ fagnar því að í heildina séu fjárframlög til fjölmiðla í landinu aukin en gerir athugasemdir við misdreifingu auðsins.

Blaðamannafélagir hvetur fjárlaganefnd til að hækka styrki til einkarekinna fjölmiðla jafnmikið og fjárframlög til RÚV eru hækkuð, um átta prósent. Þannig væri um þrjátíu milljóna króna hækkun að ræða en ekki átta milljóna lækkun.

Félagið bendir á að staða einkarekinna fjölmiðla sé ekki góð um þessar mundir. Þeir reiði sig á auglýsingatekjur, sem dregist hafi saman í kjölfar kórónukreppunnar margumtöluðu.

Þá hafi fólki sem starfar við fjölmiðlun fækkað um 45 prósent á tímabilinu 2018 til 2020. Það er að segja 731 manns.

Umsögn Blaðamannafélags Íslands má lesa í heild sinni á vefsíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×