Alls voru 81 mál skráð hjá lögreglu frá klukkan fimm í gær til fimm í morgun.
Nokkuð var af útköllum tengdum ölvun, þannig var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 108 þar sem hann gekk eftir miðri akbraut, hann var óviðræðuhæfur og neitaði að gefa upp nafn sitt. Hann var því vistaður í fangaklefa.
Þá var ölvuð kona handtekin í miðbænum og vistuð í fangaklefa en hún „gat ekki með nokkru móti valdið sér“ að sögn lögreglu.
Rán í Garðabæ
Maður var rændur í Garðabæ af þremur einstaklingum sem réðust á hann, höfðu í hótunum við hann og tóku af honum verðmæti.
Þá var tilkynnt um líkamsárás í Hafnarfirði. Fórnalambið hlaut minniháttar áverka en árásarmaðurinn var farinn þegar lögregla kom á staðinn.
Þá voru tveir handteknir í Hafnarfirði vegna gruns um sölu fíkniefna.
Unglingar brutu rúður í Breiðholti
Lögreglu barst tilkynning um eignaspjöll í Breiðholti. Þar hafði hópur unglinga gert sér að leik að brjóta rúður. Hópurinn flúði út í myrkrið þegar hann varð var við tilkynnanda.
Lögregla var kölluð til skemmtistaðar í Kópavogi. Þar höfðu brotist út slagsmál en lögreglu tókst að róa alla niður. Að loknum skýrslutökum á vettvangi héldu allir sína leið.
Í hverfi 110 var maður í annarlegu ástandi handtekinn eftir að hafa reynt að stela bifreið í lausagangi fyrir utan bensínstöð. Farþega í bílnum náði að koma í veg fyrir stuldinn en maðurinn hafði þegar náð að aka á bensíndælu.
Alls fór lögregla í ellefu hávaðaútköll í gærkvöldi og í nótt.
Fimm ökumenn voru stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna og tveir vegna ölvunaraksturs. Annar þeirra reyndist einnig undir áhrifum fíkniefna.