Þolandi virðist hafa verið með öðrum þegar ráðist var á hann en hann er sá eini í hópnum sem slasaðist. Svo virðist sem árásarhópurinn hafi elt ungmennin í Kringluna og þá bendi fyrstu upplýsingar til þess að þau síðarnefndu hafi ekki átt von á að verða fyrir árás. Allir sem koma að málinu eru undir átján ára aldri.
Elín Agnes Kristínardóttir aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við fréttastofu að ekki sé vitað með fullri vissu hversu margir hafi komið að árásinni. Vitni hafi verið að henni og öryggisverðir skorist í leikinn.
Nú hafi á stuttum tíma komið upp nokkur alvarleg mál þar sem ungmenni eiga í hlut, síðast á Álftanesi á föstudagskvöld þegar ráðist var á sextán ára pilta og þeir rændir. Það mál tengist ekki árásinni í Kringlunni en ekki hefur tekist að hafa hendur í hári gerenda. Elín segir að lögregla taki þessa þróun mjög alvarlega og vel verði skoðað hvort aukning hafi orðið í slíkum málum – og þá af hverju hún stafi.