Málið má rekja til deilna Isavia og ALC um yfirráð yfir Airbus þotu Wow Air. Isavia hafði kyrrsett þotuna árið 2019 vegna skulda flugfélagsins Wow air sem varð gjaldþrota sama ár. ALC, sem eigandi flugvélarinnar, taldi hins vegar að Isavia mætti ekki halda vélinni sem tryggingu vegna gjaldþrots annars félags, Wow air.
Þotunni var flogið burt eftir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness
Málið kom til kasta dómstóla hér á landi en endaði á því að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði að Isavia hafi aðeins verið heimilt að kyrrsetja umrædda vél vegna greiðslna sem tengdust vélinni sjálfri, ekki heildarskuldar Wow air við Isavia.
Tekið var fram í úrskurði Héraðsdóms að réttaaráhrif úrskurðarins frestuðust ekki þó málinu yrði skotið til Landsréttar og síðar Hæstaréttar, sem Isavia gerði. Það gerði það að verkum að ALC greiddi gjöldin sem tengdust vélinni og var henni að lokum snarlega flogið af landi brott.
Isavia sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og stefndi íslenska ríkinu og ALC til greiðslu 2,2 milljarða skaðabóta vegna málsins. Taldi Isavia að úrskurði sínum hafi dómari við Héraðsdóm Reykjaness sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn málsins. Félagið hafi verið svipt tryggingu fyrir umræddri skuld.
Dómarinn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi
Niðurstaða fékkst í málið í gær og komst Héraðsdómur Reykjavíkur af því að dómur Héraðsdóms Reykjaness hafi verið rangur og byggður á röngum forsendum vegna saknæmra mistaka dómara málsins.

Segir í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur að dómarinn í Héraðsdómi Reykjaness hafi litið framhjá rökstuðningi Landsréttar, æðri réttar, í sama máli og haldið sig við túlkun á lagaákvæði sem gengi í berhögg við túlkun Landsréttar.
Telur Héraðsdómur Reykjavíkur einnig að umræddur héraðsdómari hafi sýnt af sér saknæma háttsemi er hann féllst ekki á kröfu um að málskot myndi fresta aðfarargerð á grundvelli úrskurðarins. Segir að dómarinn hafi mátt vita að rétta væri að fresta aðfararaðgerðinni þar til niðurstaða æðri dómstóls lægi fyrir.
Með þessu hafi íslenska ríkið og ALC bakað Isavia tjón upp á rúma 2,5 milljarða króna. Þá þarf íslenska ríkið einnig að greiða Isavia 15 milljónir vegna málskostnaðar.