Körfubolti

Sara með tvöfalda tvennu í risasigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með Haukum, en hún leikur nú með Phoenix Constanta í rúmensku deildinni.
Sara Rún Hinriksdóttir í leik með Haukum, en hún leikur nú með Phoenix Constanta í rúmensku deildinni. Vísir/Bára

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæsti leikmaður vallarins er Phoenix Constanta vann afar öruggan 48 stiga sigur gegn Rapid Bucuresti í rúmensku deildinni í körfubolta í dag, en lokatölur urðu 37-85.

Þrátt fyrir lokatölurnar var mikið jafnræði með liðunum allan fyrri hálfleikinn. Sara og stöllur leiddu með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta, og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 22-28, Phoenix Constanta í vil.

Síðari hálfleikur var hins vegar algjör einstefna. Sara og liðsfélagar hennar unnu þriðja leikhlutann 6-23 og þann fjórða 9-34. Lokatölur urðu því 37-85 og óhætt að tala um algjöra yfirburði gestanna í síðari hálfleik.

Sara Rún skoraði 21 stig fyrir Phoenix Constanta, en hún tók einnig 11 fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Phoenix Constanta situr nú í sjöunda sæti rúmensku deildarinnar með 15 stig eftir 11 leiki, tveimur stigum meira en Rapid Bucuresti sem situr í tíunda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×