Ellefu félög mótmæltu nauðasamningnum en þeirra á meðal voru Landsbankinn, Laugarvatn Fontana, N1, Isavia og samkeppnisaðilarnir Hópbílar, Airport Direct og Reykjavík Sightseeing.
Í úrskurði Landsréttar, sem Innherji hefur undir höndum, kemur fram að staðfest sé niðurstaða héraðsdóms um að ekki séu skilyrði fyrir því að samþykkja nauðasamning samkvæmt lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar að áður hafi verið búið að leita frjálsra samninga við alla kröfuhafa. Þar er meðal annars vísað til þess að gögn málsins beri með sér að leitað hafi verið samninga við Landsbankann, sem er stærsti kröfuhafi Allrahanda, um greiðslu skulda en samkomulag hafi ekki náðst.
Þá segir Landsréttur einnig að í lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar frá árinu 2020 hefði það verið vilji löggjafans að einunigs væri heimilt að lengja lánstíma krafna er samningsveð stæði að baki í allt að 18 mánuði. Í frumvarpi Allrahanda að nauðsamningi sé hins vegar gert ráð fyrir að gjalddagi samningsveðskrafna framlengist um þrjú ár og gengur því lengra en lögin heimila. Af þessari ástæðu meðal annars hafnar Landsréttur staðfestingu nauðasamnings Allrahanda.
Landsréttur tók hins vegar ekki undir með héraðsdómi að breytt fyrirkomulag á sölu og markaðsmálum rútufyrirtækisins Gray Line væri haldinn ágöllum sem gæti skert rétt kröfuhafa.
Samkvæmt nauðasamningi Allrahanda, sem var lagður fram í júní í fyrra, sagði að ekki stæði til að fara fram á eftirgjöf skulda heldur lengja í lánum fyrirtækisins, öllum gjalddögum yrði frestað í þrjú ár og dráttarvöxtum breytt í samningsvexti. Skuldir Allrahanda eftir greiðsluskjól námu þá um einum milljarði.
Í úrskurði héraðsdóms frá því í lok síðasta árs var staðfestingu nauðasamnings Allrahanda synjað á þeim grundvelli að sú ráðstöfun að færa mikilvægustu tekjugefandi rekstrarþætti sína, sem væru vörumerkið Gray Line, viðskiptavild tengd því og vörumerkið, yfir í systurfélag sóknaraðila, GL Iceland ehf., færi gegn ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti, en sú ákvörðun hafi rýrt fjárhagsstöðu Allrahanda til tjóns fyrir kröfuhafa félagsins.
Félögin Allrahanda og GL Iceland eru í 51 prósenta eigu Þóris Garðarssonar, framkvæmdastjóra Gray Line á Íslandi, og Sigurdórs Sigurðssonar en framtakssjóðurinn Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða, fer hins vegar með 49 prósenta hlut.
Í úrskurði Landsréttar segir að Allrahanda hafi fyrir dómi vísað til þess að eigandi vörumerkisins Gray Line, Gray Line Corporation, hafi neytt heimildar í samningi sínum við Allrahanda til að rifta samningi um notkun vörumerkisins eftir að í ljós kom að nauðasamningur yrði ekki umflúinn af hálfu félagsins. Því hafi ekki verið hægt að halda vörumerkinu og selja áfram ferðir undir merkjum Gray Line á Íslandi.
„Stjórn GL Iceland ehf. hafi hins vegar lýst yfir með skuldbindandi hætti að félagið myndi greiða 98% af hagnaði sínum til Allrahanda GL. Til viðbótar þessu hafi verið brugðist við forsendum í hinum kærða úrskurði með því að 4. nóvember 2021 hafi hlutafé verið aukið um 42 milljónir króna með útgáfu nýrra hluta. Hafi hækkunin verið greidd með framsali alls hlutafjár GL Iceland. Hafi eiganda vörumerkisins Gray Line verið tilkynnt um þá ráðstöfun og hann engar athugasemdir haft uppi vegna þess. Í þessu felist að öll þau réttindi sem um ræði séu áfram að fullu í eigu Allrahanda og engin verðmæti úr greipum hans gengin. Hafi fjárhagsstaða Allrahanda því ekki verið rýrð með nokkrum hætti eða lánardrottnum bakað tjón,“ að mati félagsins.
Kröfuhafar mótmæltu því hins vegar að Allrahanda gæti raskað grundvelli málsins fyrir Landsrétti með því að GL Iceland hafi eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms verið gert að dótturfélagi ferðaþjónustufyrirtækisins. „Auk þess breyti það í engu þeirri staðreynd að Allrahanda hafi, þrátt fyrir það, rýrt fjárhagsstöðu sína með því að flytja vörumerkið og viðskiptavild samkvæmt því yfir til GL Iceland ehf. lánardrottnum til tjóns,“ segja kröfuhafar.
Ekki eru efni til að synja staðfestingu nauðasamningsins á þeim grundvelli að Allrahanda hafi rýrt fjárhagsstöðu sína gagnvart lánardrottnum sínum með því að vörumerkið Gray Line sé ekki lengur í hans umráðum.
Í úrskurði Landsréttar segir að samningum Allrahanda við nýjan rétthafa vörumerkisins Gray Line hér á landi hafi verið ætlað að stuðla að afleiddum hagnaði félagsins af notkun vörumerkisins. GL Iceland hafi lýst yfir með skuldbindandi hætti að 98 prósent hagnaðar þess félags yrði fært aftur til Allrahanda og kröfuhafar njóti engra tryggingaréttinda í vörumerkinu Gray Line.
„Í þessu ljósi eru ekki efni til að synja staðfestingu nauðasamningsins á þeim grundvelli að Allrahanda hafi rýrt fjárhagsstöðu sína gagnvart lánardrottnum sínum með því að vörumerkið Gray Line sé ekki lengur í hans umráðum,“ segir í úrskurði Landsréttar og tekur hann því ekki undir með héraðsdómi hvað þetta atriði varðar.
Í samtali við Vísir í nóvember í fyrra, þegar úrskurður héraðsdóms lá fyrir, sagði Þórir Garðarsson að niðurstaðan væri vonbrigði og viðurkenndi að það hefði mátt gera „þennan nauðasamning betur og við munum bara bæta úr því.“
Félagið var eitt það fyrsta í ferðaþjónustunni til þess að óska eftir fjárhagslegri endurskipulagningu, enda hrundu tekjur þess um 97 prósent nánast á einum degi. Auk endurskipulagningarinnar nýtti félagið sér styrki til greiðslu launa á uppsagnarfresti og svokallaða hlutabótaleið. Í tilkynningu félagsins segir að án þeirra aðgerða hefði félagið að öllum líkindum orðið gjaldþrota síðasta sumar.
Fréttin var uppfærð kl. 20:20.