Aðdáendur KEA skyrs með ávöxtum í botni og Ísey skyrs með jarðarberjum eða bláberjum þurfa nú að venjast því að nota eigin skeið. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að fjarlægja áhaldið af fleiri bragðtegundum en til stendur að skoða það betur síðar.
Þetta kemur fram í skriflegu svari MS við fyrirspurn Vísis. Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal neytenda með nýjar pappaskeiðar og papparör sem MS tók í notkun á seinasta ári. Breytingin kom í kjölfar þess að íslensk stjórnvöld innleiddu tilskipun Evrópusambandsins um bann við sölu á ýmsum einnota vörum á plasti en þeirra á meðal eru sogrör og skeiðar.

Guðný Steinsdóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri MS, segir að fyrirtækið hafi tekið eftir óánægju sumra neytenda með skeiðarnar og því lagt mikla vinnu í það að fá betri pappaskeiðar. Von sé á þeim á allra næstu vikum.