„Um 3.600 félagsmenn komu með einum eða öðrum hætti að kröfugerð félagsins fyrir síðustu kjarasamninga en við stefnum á enn betri þátttöku núna. Of snemmt er að segja til um hverjar helstu áherslur okkar verða en það er undir félagsmönnum komið,” segir Ragnar Þór.
Hann segir heimsfaraldurinn þó muni spila inn í kjaraviðræður. Þar vegi þyngst áhrif erlendra hækkana á vöruverð. „Sem munu hafa mikil áhrif á launaliðinn. Það eru svo fleiri þættir sem brestir í virðiskeðju heimsins hafa haft á lífskjör okkar fólks."
Bregðast þurfi við breyttu vinnuumhverfi
Einnig þurfi að bregðast við gjörbreyttu vinnuumhverfi. „Við þurfum því að ramma betur inn fjarvinnu er snýr að lýðheilsu, aðbúnaði, tryggingum, vinnutíma og hvíldartíma og aðra þætti er snúa að réttindum launafólks varðandi sóttkví og einangrun,” segir hann.
En samræmast kröfur um hærri laun gagnrýni innan úr verkalýðshreyfingunni á hækkandi vexti Seðlabankans á tímum þegar verðbólga mælist yfir 5 prósent?
„Verðbólgan sem nú mælist er að langmestu leiti vegna erlendra áhrifa og stöðunnar á húsnæðismarkaði. Hækkun stýrivaxta slá ekki á skort á húsnæðismarkaði né lækkar heimsmarkaðsverð á hrávöru, orku og umbúðum - hvað þá flutningum - sem hafa margfaldast,” segir Ragnar Þór.
Segir launahækkanir spila lítið hlutverk í mældri verðbólgu
Hann segir hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að verja kaupmátt fólks með hærri launum. „Til að standa undir auknum álögum Seðlabankans og áhrif verðlagshækkana á kaupmátt.
Kjarasamningsbundnar launahækkanir spila lítið hlutverk í verðbólgunni sem nú mælist. Launakostnaður fyrirtækja sem hlutfall af veltu hefur lækkað og hagnaður fyrirtækja hefur aukist mikið.
Í því samhengi er spáð að arðgreiðslur skráðra fyrirtækja og uppkaup eigin bréfa fari í 200 milljarða á þessu ári. Þróun hlutabréfaverðs virðist ekki gefa til kynna áhyggjur fjárfesta á kjarasamningsbundnum hækkunum launafólks,” segir hann.
„En auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að staða fyrirtækja er misjöfn. Mörg standa afar vel á meðan önnur berjast í bökkum. Sama má segja um misjafna stöðu fólks á vinnumarkaði. Það verður okkar helsta áskorun í komandi kjarasamningum að leysa úr því.”
Aðspurður segist hann standa við þá yfirlýsingu sína að hver einasta króna sem lögð yrði á heimilin, í formi hærri vaxta, verði sótt tilbaka í kjarasamningum.
„Ég stend við þá yfirlýsingu. En við getum sótt þær krónur með margvíslegum hætti. Mestu máli skiptir að halda áfram á þeirri braut að lækka kostnaðinn við að lifa í þessu landi. Þar liggja mörg tækifæri og margar leiðir sem skapað geta betri lífskjör í íslensku samfélagi.”
Innherji mun á næstu dögum birta viðtöl við forsvarsmenn verkalýðsfélaga og atvinnurekenda þar sem fjallað verður almennt um kjarasamningsviðræður sem framundan eru.
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.