Fótbolti

Sú besta tryggði Barcelona í úrslit Ofur­bikarsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas skoraði sigurmark Barcelona í kvöld.
Alexia Putellas skoraði sigurmark Barcelona í kvöld. Twitter/@FCBfemeni

Barcelona vann Real Madríd 1-0 í fyrri undanúrslitaleik spænska Ofurbikarsins í knattspyrnu í kvöld. Það var við hæfi að besta knattspyrnukona heims, Alexia Putellas, hafi skorað sigurmarkið en það lét svo sannarlega á sér standa.

Leikur kvöldsins var töluvert meira spennandi en búist var við. Barcelona hefur verið óstöðvandi undanfarin misseri og unnið allt sem hægt er að vinna.

Liðið er sem stendur með fullt hús stiga í spænsku úrvalsdeildinni og varla lent í vandræðum það sem af er tímabili, það er þangað til í kvöld. Real Madríd er í 8. sæti en þær stóðu heldur betur í meisturunum.

Það var komið fram yfir venjulegan leiktíma þegar Alexia Putellas, handhafi Gullknattarins ásamt því að vera nýkjörin besti leikmaður heims að mati Alþjóðaknattspyrnusambandsins, skoraði sigurmark leiksins.

Lokatölur 1-0 og Barcelona á möguleika á að bæta enn einum titlinum í safnið.

Levante og Atlético Madríd mætast í hinum undanúrslitaleiknum annað kvöld. Leikirnir fara fram á Spáni ólíkt því sem þekkist karlamegin en þar fara leikirnir um Ofurbikarinn fram í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×