Handbolti

Rosaleg dramatík en Spánverjar fyrstir í undanúrslitin á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Jose Maria Marquez Coloma sækir gegn Dmitry Kornev í leik Spánar gegn Rússlandi í dag.
Jose Maria Marquez Coloma sækir gegn Dmitry Kornev í leik Spánar gegn Rússlandi í dag. EPA-EFE/MARTIN DIVISEK

Rússar klúðruðu víti á síðustu sekúndu í eins marks tapi gegn Spáni, 26-25, í milliriðli tvö á Evrópumótinu í handbolta í dag.

Sigurinn þýðir að Spánverjar eru komnir áfram í undanúrslit en þeir hafa unnið alla sína leiki til þessa. Þeir eru með sex stig, fjórum stigum á undan Noregi, Svíþjóð, Þýskalandi og Rússlandi. 

Síðar í dag mætast Pólland og Svíþjóð, og Þýskaland og Noregur. Ljóst er að ekki geta tvö lið komist upp fyrir Spán.

Leikurinn var æsispennandi allan tímann en Spánverjar voru með boltann þegar skammt var eftir og virtust ætla að geta haldið boltanum út leiktímann. Máttlaust skot Antonio García var hins vegar varið og Rússar náðu að taka leikhlé þegar átta sekúndur voru eftir.

Lokasókn þeirra virtist hafa farið í súginn og Spánverjar fögnuðu ákaft, en voru svo stöðvaðir þegar dómararnir ákváðu að skoða á upptöku hvort að dæma ætti víti á Spán. Sú varð niðurstaðan. Víti og leiktíminn útrunninn.

Igor Soroka tók vítið en skaut í innanverða stöngina og þaðan fór boltinn út fyrir hliðarlínu, og Spánverjar gátu fagnað á nýjan leik.

Spánverjar hafa nú komist í undanúrslit sex sinnum í röð á EM, og eru fyrstir til að ná því síðan að Króatar léku sama leik á árunum 2004 til 2016.

Agustín Casado var markahæstur Spánar með sjö mörk en Dimitrii Santalov skoraði flest mörk Rússa eða sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×