Lionel Messi spilaði sinn fyrsta leik eftir að hafa jafnað sig af veikindum af völdum Covid-19 veirunnar. Messi kom inn á sem varamaður á 63. mínútu leiksins fyrir Angel Di Maria, rétt eftir Sergio Ramos hafði komið PSG í 2-0 með sínu fyrsta marki fyrir félagið. Marco Veratti hafði áður komið París í forystu með fyrsta marki leiksins rétt fyrir hálfleik.
Messi var líflegur eftir innkomu sína og tók þátt í uppbyggingu á þriðja markinu sem var sjálfsmark Wout Faes á 67. mínútu. Danilo Pereira klárar svo dæmið fyrir PSG með marki 15 mínútum fyrir leikslok eftir flottan undirbúning frá Kylian Mbappe og 4-0 sigur PSG á Reims varð staðreynd.
París er með sigrinum búið að styrkja stöðu sína á toppi frönsku deildarinnar. Liðið er nú 53 stig og með 11 stiga forskot á Nice sem er í öðru sætinu.