Þetta kemur fram í tilkynningu á vef lögreglunnar. Þar segir að vinnu á vettvangi hafi lokið í nótt. Í kjölfarið hafi verið unnið úr gögnum sem lögð voru fyrir á fundi aðgerðastjórnar sem fram fór í hádeginu.
„Fram að þessu hefur Landhelgisgæsla Íslands haft stjórnun aðgerða með höndum í samræmi við ákvæði reglugerðar um leit og björgun en nú þegar slysstaður er þekktur færist forræði máls yfir á hendur Lögreglunnar á Suðurlandi. Aðgerðin, og stjórnun hennar, fram til þessa hefur gengið afar vel og samstarf milli eininga og umdæma verið með eindæmum auðvelt. Stór þáttur í því er sá lærdómur sem Íslendingar hafa öðlast á notkun fjarfundabúnaðar á margnefndum Covid tímum og hefur hann auðveldað alla skipulagningu og samskipti á þessari umfangsmiklu aðgerð,“ segir í tilkynningunni.
Þá er komið á framfæri einlægum þökkum stjórnenda til björgunarsveita og viðbragðsaðila, sjálfboðaliða og einstaklinga sem buðu fram aðstoð sína í formi leitar úr lofti og vatni, fæði og gistiaðstöðu eða hverju öðru sem boðið var fram. Það séu einstök verðmæti sem felist í samheldninni sem aðgerðin hafi leitt í ljóst.
Aðgerðin flókin og hættuleg
Nú sé hins vegar fram undan tæknilega flókin aðgerð við að ná flakinu og fólkinu sem var í vélinni upp á yfirborðið.
„Sú vinna fer fram samhliða rannsókn slyssins sem er í höndum rannsóknardeildar Lögreglunnar á Suðurlandi og Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Tæknileg úrlausn hennar verður í höndum Landhelgisgæslu og sérsveitar ríkislögreglustjóra sem munu kalla til þá aðila sem til þarf. Næstu dagar verða nýttir til undirbúnings þess verkefnis og fyrir liggur að til þess að það gangi vel fyrir sig þarf að vera veðurgluggi sem varir a.m.k. í tvo sólarhringa.“
Þá fylgi aðgerðinni umtalsverðar hættur fyrir björgunarlið og því skipti miklu að hún sé vel undirbúin.