Innherji

Sigmar sakar Sjálfstæðisflokkinn um efnahagslegt metnaðarleysi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Sigmar Guðmundsson tókust hressilega á í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu í morgun.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Sigmar Guðmundsson tókust hressilega á í óundirbúnum fyrirspurnum á þinginu í morgun.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, gerði vaxtahækkanir og hækkandi afborganir almennings af húsnæðislánum sínum að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnum í þinginu í dag og sakaði Sjálfstæðisflokkinn um efnahagslegt metnaðarleysi. 

Hann beindi orðum sínum að utanríkisráðherra og varaformanni Sjálfstæðisflokksins, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, sem segir ekkert metnaðarleysi felast í því að benda á það að vextir séu þrátt fyrir hækkanir undanfarið lágir í sögulegu samhengi. Hún segist sakna umræðu um fleiri þætti sem hafa áhrif á vaxtastig og nefndi vinnu- og húsnæðismarkaðinn í því samhengi.

„Nú hafa hæstvirtur fjármálaráðherra og seðlabankastjóri að undanförnu talað um þessa vexti í því samhengi að stýrivextir á Íslandi séu vissulega lágir núna í sögulegu samhengi. Mig langar að nefna að lágir vextir í íslensku, sögulegu samhengi eiga ekki að vera viðmiðið. Það er efnahagslegt metnaðarleysi að halda því fram. Við eigum frekar að miða okkur við nágrannalöndin þar sem vextir eru miklu, miklu lægri,” segir Sigmar og spurði Þórdísi hvaða ráð hún hefði til þeirra þúsunda sem nú sæju fram á töluverða hækkun á húsnæðislánum sínum vegna vaxtastigs.

Mig langar í því samhengi að nefna að lágir vextir í íslensku sögulegu samhengi eiga ekki að vera viðmiðið. Það er efnahagslegt metnaðarleysi að halda því fram.

Þórdís saknar umræðu um heildarmyndina

Þórdís er ósammála þessari túlkun Sigmars og kannaðist ekki við að það væri metnaðarleysi að halda því til haga að vextir séu í sögulegu lágmarki. 

„Þrátt fyrir að þeir hafi hækkað. Mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum hér það sem hefur áhrif á vaxtastig í landinu og mér finnst við ýmist ekki ræða það nægilega mikið eða ekki með þeim hætti að hlutirnir séu settir í samhengi,” segir Þórdís og nefnir húsnæðismarkaðinn sérstaklega. 

„Stærstu sveitarfélögin í landinu hafa auðvitað mikil áhrif hvað varðar framboð á húsnæðismarkaði og Reykjavíkurborg þar sérstaklega,” segir Þórdís, sem líkt og seðlabankastjóri og fleiri hefur áður gagnrýnt framboðsskort á húsnæði í þessu samhengi.

Þórdís segir nauðsynlegt að líta til þess hvaða þættir það eru sem helst hafa áhrif á vexti. „Hér er talað um, þegar kemur að vöxtum og verðbólgu, áhrifin á þá sem í dag eiga húsnæði og horfa á lánin sín hækka. Þá þurfum við líka að halda því til haga að eignastaða fólks, sem hefur þá þegar komist inn á húsnæðismarkaðinn, er langtum betri en áður. Eignastaðan hefur líklega batnað um 1.000 milljarða, eða þar um bil, á meðan við erum að tala um 500 milljarða á hinni hliðinni hvað varðar áhrif á verðbólgu og vexti. Ég hef því í raun meiri áhyggjur af því fólki sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn,” segir Þórdís. 

„Þar höfum við í Sjálfstæðisflokknum talað mjög skýrt og höfum góða sögu að segja með þeim aðgerðum sem farið hefur verið í til þess að auðvelda því fólki að komast inn á húsnæðismarkaðinn,” segir hún.

Eignastaðan hefur líklega batnað um 1.000 milljarða, eða þar um bil, á meðan við erum að tala um 500 milljarða á hinni hliðinni hvað varðar áhrif á verðbólgu og vexti. Ég hef því í raun meiri áhyggjur af því fólki sem þarf að komast inn á húsnæðismarkaðinn

Vinnumarkaðsmódelið sé risastór þáttur sem verði ekki litið framhjá

Sigmar skaut þá föstum skotum á Sjálfstæðisflokkinn. „Þegar vextir lækka er það Sjálfstæðisflokknum að þakka en þegar vextir hækka þá er það einhverjum allt öðrum að kenna.”.

„Þessi flokkur virðist sérhæfa sig í því að kannast ekki við ábyrgð sína á hagstjórninni. Það er efnahagslegt metnaðarleysi að segja við fólk, sem horfir fram á tugþúsunda króna hækkun á húsnæðiskostnaði sínum í mánuði hverjum, að vextir séu lágir í sögulegu samhengi. Það er metnaðarleysi vegna þess að við eigum að miða okkur við önnur lönd í nágrenni okkar," segir Sigmar.

Þórdís tók undir að ríkisfjármálin skipti verulegu máli þegar rætt sé um vexti. Hins vegar hafi vaxtaákvörðun Seðlabankans í gær verið fyrirséð og vitað sé hvers vegna hafi verið gripið til þess ráðs að hækka vexti.

„Það eru að hluta til ákvarðanir sem við tökum hér sem geta vissulega haft áhrif og samtal okkar við aðila vinnumarkaðarins með óbeinum hætti og aðgerðir sem alla jafna fylgja kjaraviðræðum. En það er líka launaþróun og það er kannski líka munurinn á Íslandi og löndunum í kringum okkur, vinnumarkaðsmódelið hér er ekki sambærilegt því sem er þar. Það er risastór þáttur í þessari stöðu,” segir Þórdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×