Innherji

Stjórnardeilur valda „rekstrarrofi“ á skrifstofu kjarafélags viðskiptafræðinga

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Kjarafélagið er til húsa í Borgartúni.
Kjarafélagið er til húsa í Borgartúni. VÍSIR/VILHELM

Allir starfsmenn á skrifstofu Kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH), sem samanstendur af 1700 félagsmönnum, hafa sagt upp störfum og fram undan er rekstrarrof á skrifstofunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu kjarafélagsins sem Ásta Leonhardsdóttir, varaformaður KVH og stjórnarmaður í Bandalagi háskólamanna, er skrifuð fyrir.

„Á starfsári núverandi stjórnar KVH bar fljótlega á hnökrum í samstarfi hennar sem ágerst hefur eftir því sem liðið hefur á starfsárið. Óhjákvæmilega hafa þessir brestir haft afleiðingar á skrifstofu félagsins sem skapað hefur stigvaxandi ókyrrð í starfsöryggi grandlausra starfsmanna þar,“ segir í yfirlýsingunni.

„Nú er svo komið að allir starfsmenn á skrifstofu KVH hafa sagt upp störfum. Sú þekking sem býr í starfsfólki skrifstofunnar mun á næstu dögum og vikum hverfa með brotthvarfi þeirra. Er það mjög miður og er hér um altjón félagsins að ræða.“

Ásta segir að komast hafi mátt hjá þessari stöðu en stjórnin hafi sneitt hjá tækifærum til þess þrátt fyrir viðvörunarmerki. „Framundan er rekstrarrof á skrifstofu KVH,“ bætir hún við. Þá segist Ásta ekki sjá annan kost í stöðunni en að hverfa úr stjórn KVH þar sem við „ofurefli“ hafi verið að etja til að vinda ofan af stöðunni.

Kjarafélagið, sem er eitt af aðildarfélögum BHM, sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna. Greiðandi félagsmenn eru um 1.700 talsins og starfar um helmingur þeirra á almennum vinnumarkaði. 

Auk Ástu sitja Stefán Þór Björnsson, Helga S. Sigurðardóttir, Guðjón Hlynur Guðmundsson og Heiðrún Sigurðardóttir í stjórn kjarafélagsins. Skrifstofa þess er til húsa að Borgartúni 6 þar sem skrifstofur BHM og flestra annarra aðildarfélaga þess eru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×