Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem Landsvirkjun lítur helst til þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 29,5 milljarðar króna og hækkaði um 64 prósent á milli ára í Bandaríkjadal talið.
Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu tæplega 73 milljörðum króna og hafa aldrei verið meiri í sögu fyrirtækisins. Þær jukust um rúm 23 prósent milli ára.
„Bætta afkomu má rekja til mikils bata í rekstrarumhverfi stórnotenda viðskiptavina okkar og Landsvirkjunar sjálfrar. Þegar leið á síðasta ár varð raforkukerfið á Íslandi fulllestað og eftirspurn mikil frá fjölbreyttum viðskiptavinum," er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningunni.
Selt heildarmagn jókst um 5 prósent á milli ára. Meðalverð inn á heildsölumarkað til heimila og smærri fyrirtækja nam 5,3 kr/kWst og hækkaði ekki frá fyrra ári. Meðalverð til stórnotenda hækkaði hins vegar um 55 prósent og var 32,7 USD/MWst.
Hörður segir að hækkunina megi einkum rekja til hagstæðra ytri skilyrða á ál og orkumörkuðum og þess að endursamið hefur verið við flest fyrirtækin. „Greiða þau sambærileg verð og þau greiða í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda.“
Bætta afkomu Landvirkjunar á síðasta ári má því alfarið rekja til hækkunar á tekjum af sölu til stórnotenda
Þá lækkuðu nettó skuldir um tæpa 175 milljónir dala, sem jafngilda um 23 milljörðum króna, og voru þær 1.500 milljónir dala í lok árs. Hörður segir að helstu skuldahlutföllin séu nú orðin sambærileg hjá systurfyrirtækjum á Norðurlöndunum. Lykilmælikvarðinn nettó skuldir/EBITDA lækkaði umtalsvert á síðasta ári og eru hreinar skuldir nú aðeins um 3,5-faldur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir.
„Ekki er því lengur þörf á að leggja áherslu á hraða lækkun skulda og hefur arðgreiðslugeta fyrirtækisins þar af leiðandi aukist. Í þessu ljósi áformar stjórn fyrirtækisins að leggja til við aðalfund um 15 milljarða króna arðgreiðslu vegna síðasta árs.“
Landsvirkjun greiddi ríkissjóði 6 milljarða króna arð í fyrra og árið 2020 nam arðgreiðslan 10 milljörðum.