Fótbolti

Falleg stund þegar Roman Yaremchuk fékk fyrirliðaband Benfica

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úkraínski framherjinn Roman Yaremchuk fékk fyrirliðaband Benfica þegar hann kom inn á sem varamaður í gær.
Úkraínski framherjinn Roman Yaremchuk fékk fyrirliðaband Benfica þegar hann kom inn á sem varamaður í gær. Gualter Fatia/Getty Images

Úkraínski framherjinn Roman Yaremchuk spilaði seinasta hálftíma leiksins er Benfica vann 3-0 sigur gegn Vitoria de Guimaraes í portúgölsku deildinni í fótbolta í gær og fékk vægast sagt mikinn stuðning áhorfenda og liðsfélaga sinna þegar hann kom inn af varamannabekknum.

Yaremchuk kom inn á sem varamaður eftir rétt rúmlega klukkutíma leik í stöðunni 3-0. Áhorfendur risu á fætur og klöppuðu fyrir Úkraínumanninum og veifuðu úkraínska fánanum til að sýna þjóðinni stuðning eftir innrás Rússa.

Nokkrir liðsfélagar framherjans skokkuðu að hliðarlínunni og tóku vel á móti félaga sínum. Meðal þeirra sem tók á móti Yaremchuk var fyrirliði liðsins, Jan Vertonghen.

Vertonghen tók af sér fyrirliðabandið og setti á Yaremchuk sem átti erfitt með að halda aftur tárum þegar hann fann fyrir þessum mikla stuðningi í garð þjóðar sinnar.

Benfica birti myndband af skiptingunni á Twitter-reikningi sínum eftir leikinn og hægt er að sjá þetta fallega atvik hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×