Leikurinn var jafn framan af en seinni hluta fyrri hálfleiks náði Valur undirtökunum.
„Vörnin hrökk í gang. Við vorum rosa sterkar þar, brutum vel og markvarslan kom með. Það gaf okkur auðveld mörk fram á við og við sigldum aðeins fram úr,“ sagði Sara við Vísi eftir leik.
Valur var þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-9, og bætti bara í eftir hlé og náði fljótlega þægilegu forskoti.
„Við fórum af krafti út úr fyrri hálfleik og inn í þann seinni. Þetta var geggjaður leikur heilt yfir nema kannski fyrstu tíu til fimmtán mínúturnar,“ sagði Sara sem vildi ekki gera of mikið úr eigin frammistöðu í leiknum.
„Þegar vörnin er svona góð er ekki annað hægt að gera en að taka sitt. Þetta er svo mikið samspil. Ef eitt kemur, þá kemur hitt yfirleitt með.“
Í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn mætir Sara sínum gömlu félögum í Fram. Hún hlakkar til leiksins stóra.
„Það er eitthvað lúmskt gaman við að spila á móti Fram. Þetta verður ótrúlega spennandi leikur og ég mæli með því fyrir alla að mæta og horfa á þessi geggjuðu lið,“ sagði Sara að lokum.