Sveitarfélagið Árborg boðaði til íbúafundar í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka í vikunni til að ræða stöðuna í skólamálum á bakkanum og á Stokkseyri en mygla eru í báðum skólunum í þorpunum. Fundurinn var fjölsóttur.
Sérfræðingar frá Eflu byrjuðu á því að fjalla um mygluna í skólanum á Eyrarbakka eftir að þeir höfðu tekið fjölmörg sýni þar, sem sýndu mikla miklu og þá voru líka tekin sýni úr elsta húsnæðinu á Stokkseyri, sem sýndi líka myglu. Eftir það voru haldin nokkur erindi og boðið upp á umræður og fyrirspurnir.

Í dag fer kennsla unglingastigsins á Eyrarbakka fram í veitingahúsinu Rauða húsinu og á Stað en það hús míglekur að sögn skólastjórans.
„Þetta reynir á alla, alveg sama um hvort ræðir nemandann eða starfsfólk, þetta eru ekki aðstæður, sem við buðum upp á þegar fólk hóf skólaárið í ár,“ segir Páll Sveinsson, skólastjóri.
En hvað segja nemendur yfir stöðunni?
„Þeir voru spenntir í fyrstu en svo eftir hálfan mánuð eða slíkt fór brosið að renna af þeim þegar nemendur áttuðu sig á því að húsnæðið væri ekkert sérlega hentugt,“ segir Páll.

En hvar vill skólastjórinn að nýr skóli verður byggður?
„Það þarf klárlega að byggja húsnæði og þá nýtt húsnæði, hvar það verður, það skiptir kannski ekki öllu máli. Lykilatriðið er, ef að þarfir nemandans eru settar í forgrunn, þá verður niðurstaðan góð fyrir alla.“

Nú er það alfarið í höndum bæjaryfirvalda í Árborg hvað verður gert í húsnæðismálum Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Nokkrir foreldrar létu álit sitt í ljós á íbúafundinum um ástand núverandi skólahúsnæðis á Eyrarbakka. Ef marka má skoðanir íbúa á fundinum þá vill mikill meirihluti að það verði byggt nýtt skólahúsnæði á Eyrarbakka.
„Ástandið á sumum af þessum útistofum er þannig og hefur verið lengi að kvefuð rotta myndi ekki leita sér skjóls þar í fárviðri. En skólahúsið sjálft vaðandi í myglu er þar fyrir utan ekki boðlegur húsakostur fyrir skólastarf á 21 öldinni,“ sagði Guðmundur Brynjólfsson, foreldri barns í skólanum.
