Körfubolti

LeBron með 38 stig á gamla heimavellinum og segist aldrei hafa notið þess meira að spila

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gengi Los Angeles Lakers hefur ekki verið upp á marga fiska í vetur en LeBron James nýtur þess samt í botn að spila.
Gengi Los Angeles Lakers hefur ekki verið upp á marga fiska í vetur en LeBron James nýtur þess samt í botn að spila. getty/Jason Miller

Þrátt fyrir að Los Angeles Lakers geti lítið er LeBron James að spila vel og segist aldrei hafa notið þess jafn mikið að spila körfubolta.

LeBron skoraði 38 stig þegar Lakers vann hans gamla lið, Cleveland Cavaliers, 120-131, á útivelli í nótt.

„Ég hef aldrei haft það betra. Leikurinn er svo fallegur hlutur,“ sagði LeBron eftir leikinn á gamla heimavellinum. „Mér gæti ekki verið meira sama um það sem er sagt um liðið okkar. Á þessu stigi ferilsins skipti ég mér ekki af því og það skiptir ekki máli. Ég nýt þess í botn að spila.“

Auk þess að skora 38 stig tók LeBron ellefu fráköst og gaf tólf stoðsendingar. Hann hefur nú unnið sautján af átján leikjum sínum gegn Cleveland á ferlinum. Russell Westbrook átti óvenju góðan leik fyrir Lakers; skoraði tuttugu stig, gaf ellefu stoðsendingar og tapaði boltanum bara einu sinni.

Þrátt fyrir að vera án Joels Embiid og James Harden vann Philadelphia 76ers góðan sigur á Miami Heat, 113-106, í uppgjöri tveggja efstu liða Austurdeildarinnar.

Tyrese Maxey skoraði 28 stig fyrir Sixers og Shake Milton tuttugu. Jimmy Butler var með 27 stig hjá Miami.

Kevin Durant skoraði 37 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar þegar Brooklyn Nets sigraði Utah Jazz, 114-106. Bruce Brown bætti 22 stigum við fyrir Brooklyn.

Úrslitin í nótt

  • Cleveland 120-131 LA Lakers
  • Philadelphia 113-106 Miami
  • Brooklyn 114-106 Utah
  • Charlotte 106-103 New Orleans
  • Detroit 115-119 Portland
  • Chicago 113-99 Toronto
  • Houston 115-97 Washington
  • Oklahoma 123-132 Boston
  • Dallas 110-108 Minnesota
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×