Holland er á leið á HM í Katar sem verður haldið í nóvember og desember á þessu ári. Van Gaal er samt algjörlega mótfallinn því að heimsmeistaramótið sé haldið þar í landi.
„Allir vita að mér finnst fáránlegt að HM sé haldið þarna. Að við spilum þarna til að hjálpa fótboltanum í Katar að þróast? Það er kjaftæði. Þetta snýst um peninga. Það skiptir máli fyrir FIFA,“ sagði Van Gaal.
„Af hverju haldiði að ég sé ekki í nefnd með mína reynslu og þekkingu? Ég hef alltaf verið mótfallinn svona stofnunum. Þetta er ekki rétt. Ég gat sagt það í Katar en andstaða mín hjálpar ekki til að útrýma vandamálinu.“
Þúsundir verkamanna hafa látist við uppbyggingu leikvanga í aðdraganda HM og réttindi þeirra eru virt að vettugi. Þá er staða mannréttinda í Katar vægast sagt slæm.
Holland mætir Danmörku og Þýskalandi í tveimur vináttulandsleikjum í lok mánaðarins.