Er velgengni líklegri ef við erum hamingjusöm?
Eða verðum við hamingjusöm vegna þess að okkur er að ganga vel?
Til að svara þessari spurningu var framkvæmd rannsókn í Bandaríkjunum sem stóð yfir í fimm ár og FastCompany sagði frá nýlega. Þátttakendur í rannsókninni voru tæplega milljón manns. Allt starfsmenn hjá Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna fengnir til að taka þátt.
Konur og karlar í alls kyns störfum sem búa víðs vegar um Bandaríkin. Sumir í hernum, aðrir vörubílstjórar, flugmenn, læknar, fólk í ræstingum, í kennslu, í þjónustustörfum og svo framvegis.
Ástæðan fyrir því að vísindamennirnir fengu Varnarmálaráðuneytið til liðs við sig er sú að ráðuneytið telst stærsti vinnustaður í heimi með tilliti til fjölda starfsfólks og ólíkra starfa.
Sem einmitt þurfti sem úrtak í þessa rannsókn.
Kemur svarið ykkur á óvart?
Að sögn einn forsvarsmanna rannsóknarinnar er greinileg fylgni á milli jákvæðni og árangurs í starfi.
Þannig var það áberandi í niðurstöðum að fólk sem er mjög jákvætt að eðlisfari og í almennu viðhorfi, er mjög líklegt til að ná árangri og yfir höfuð frábærri frammistöðu.
Neikvæðni hefur þveröfug áhrif því neikvætt viðhorf er líklegt til að draga úr þeirri getu sem fólk býr yfir til að ná árangri eða ganga vel.
Megin niðurstöðurnar eru hins vegar þær að við getum ekki vitað hvort kemur á undan:
Hamingja eða velgengni.
Því í niðurstöðunum mátti sjá að þú þarft ekki að vera hamingjusamur/hamingjusöm þótt þér vegni vel í starfi.
Að sama skapi getur þú verið mjög hamingjusamur/hamingjusöm, þótt þér vegni síður vel í starfi.
En var öll þessi vinna í fimm ár þá bara tilgangslaus vegferð?
Nei, aldeilis ekki.
Því að sögn forsvarsmanna rannsóknarinnar er til mikils að vinna að hvetja fólk og þá ekki síður stjórnendur vinnustaða, til þess að stuðla sem best að hamingju fólks.
Enda hafi rannsóknin sýnt að það að styðjast við hamingju fólks sem mælikvarða á frammistöðu starfsfólks sé góður mælikvarði.
Í alla staði aukist líkurnar á að fólk standi sig samkvæmt bestu getu og jafnvel umfram það sem það trúir sjálft, ef það er jákvætt og hamingjusamt.
Góð ráð til stjórnenda
Forsvarsmenn rannsóknarinnar gáfu þau ráð til stjórnenda vinnustaða að bæta mælikvarða um hamingju í þær mælingar sem vinnustaðir styðjast við til að meta hæfni, getu og frammistöðu starfsfólks.
Þá bentu þeir á að með hamingunni sem viðbótar mælikvarða aukast líkurnar á að hægt sé að nema hvort eitruð stjórnun eða eitruð menning sé innan einhverra teyma. Og ef svo er, þurfi að bregðast við því strax því eitruð menning hefur sömu áhrif og neikvæðnin sýndi í rannsókninni: Dregur úr frammistöðu.
Eins hvöttu þeir stjórnendur til að vinna markvisst að aukinni hamingju starfsfólks.
Þetta væri hægt með alls kyns leiðum.
Til dæmis að þjálfa fólk í að lifa í þakklæti, því það að lifa í þakklæti hefur almennt sýnt að skili sér í aukinni hamingju fólks.
Þá gæti verið sniðugt að hvetja starfsfólk til að skrifa daglega niður þrjú atriði sem gengu sérstaklega vel hjá þeim þann daginn eða þá vikuna, sem rannsóknir hafa sýnt að auka líka á jákvæðni og vellíðan fólks.
Lykilatriðið í þessu öllu saman væri að þegar það kemur að eflingu starfsfólks vinnustaða, sýni rannsóknir að vinnustaðir þurfi beinlínis að huga að hamingju og vellíðan starfsfólks með markvissum hætti, sé ætlunin að ná sem bestum árangri.