Viðskipti innlent

Færir sig í Borgartúnið eftir stutta dvöl hjá ÍSÍ

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kristjana Arnarsdóttir.
Kristjana Arnarsdóttir. ÍSÍ

Kristjana Arnarsdóttir, fjölmiðlakona og fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra, hefur sagt starfi sínu lausu sem verkefnastjóri kynningarmála hjá Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ). Þess í stað snýr hún sér að kynningarmálum Samtaka atvinnulífsins.

„Ég er að koma þar inn í stöðu sem losnaði í haust og fannst spennandi,“ segir Kristjana í samtali við fréttastofu.

Hún klárar að ganga frá málum hjá ÍSÍ í þessari viku en hún gekk í þeirra raðir í apríl síðastliðnum. Kristjana hefur störf hjá Samtökum atvinnulífsins í næstu viku.

„Ég er þessa dagana að ganga frá lausum endum á ÍSÍ, þar hefur verið óskaplega gaman og gefandi að vinna með alveg frábæru fólki. Ég hef svo störf hjá SA eftir helgi og hlakka mikið til komandi tíma þar,“ segir hún.

Kristjana er með B.A.-próf í mannfræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands og MSc-próf í markaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún starfaði um árabil sem íþróttafréttamaður og þáttastjórnandi hjá Ríkisútvarpinu en skipti um vettvang í september 2024.

Þá tók hún við starfi sem aðstoðarmaður Ásmundar Einars Daðasonar á meðan hann gengdi embætti mennta- og barnamálaráðherra. Það gerði hann aðeins fram í desember 2024 þegar ný ríkisstjórn var mynduð. 

Meðfram starfi sínu hjá ÍSÍ hefur Kristjana stýrt umfjöllun um stórleiki enska boltans á sunnudögum á Sýn.

Vísir er í eigu Sýnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×