Innherji

Varar við því að starfsemin í Keflavík fjármagni taprekstur á innanlandsflugi

Hörður Ægisson skrifar
Orri Hauksson hætti sem stjórnarformaður Isavia á aðalfundi félagsins í gær og í hans stað var skipaður í stjórnina Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra. 
Orri Hauksson hætti sem stjórnarformaður Isavia á aðalfundi félagsins í gær og í hans stað var skipaður í stjórnina Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.  Isavia

Fráfarandi stjórnarformaður Isavia varar við hugmyndum um að starfsemin á Keflavíkurflugvelli, sem eigi í samkeppni við aðra alþjóðaflugvelli, verði nýtt til að fjármagna rekstrarhalla á innanlandsfluginu. Stjórnendur telja horfur fyrir sumarið „enn vænlegar“ og að mikilvægt sé að hætt var með sóttvarnaraðgerðir á landamærunum sem fyrirliggjandi gögn hafi sýnt að voru að „valda meiri skaða heldur en verið til gagns“.

„Flugvellirnir innanlands standa ekki undir sér fjárhagslega og eru fjármagnaðir með framlögum úr ríkissjóði. Ef Isavia verður ætlað að jafna stöðu landsmanna óháð búsetu mun þurfa að draga úr framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli,“ segir Orri Haukson, sem hætti sem stjórnarformaður Isavia á aðalfundi félagsins í gær eftir að hafa setið í stjórn félagsins frá árinu 2019.

„Notkun innviðanna suður með sjó, sem gegna lykilhlutverki í íslensku hagkerfi, gæti þannig farið yfir þolmörk á ný, einmitt þegar endurreisnarstarfið á að rísa sem hæst. Þegar stærsti kúfur uppbyggingarinnar verður að baki verður Isavia í stöðu til að byrja að greiða arð, sem er hefðbundinn farvegur fyrir útflæði fjár úr félögum til eiganda síns,“ útskýrir Orri í ávarpi sínu sem birtist í ársskýrslu Isavia sem kom út samhliða aðalfundi félagsins.

Hann bendir á að áætlanir geri núna ráð fyrir 50 milljarða króna fjárfestingum á næstu fimm árum og að sú „risavaxna uppbygging“ sé nauðsynleg til að standa undir þeim sjálfbæru innviðum sem Isavia vill byggja upp og þeirri umferð sem félagið sjái fyrir sér. 

Geta Isavia til að takast á við slíkar framkvæmdir hafi verið löskuð eftir hrun í flugsamgöngum í farsóttinni. Íslenska ríkið, eigandi alls hlutafjár í Isavia, lagði félaginu til 15 milljarða í aukið hlutafé á liðnu ári auk þess sem innlendir og erlendir lánveitendur telja Isavia „traustan lántaka“ og hafa veitt því aðgang að hagkvæmu lánsfé, að sögn Orra.

Horfur fyrir sumarið eru þannig enn vænlegar, en samsetning farþega gæti hins vegar tekið breytingum og mörg flugfélög meta nú hvort breyta eigi flugleiðum og verðlagningu.

Þá segir hann í ávarpi sínu að stríðsátökin í Úkraínu séu farin að setja mark sitt á flugsamgöngur og uppbyggingu flugvalla um allan heim, þar á meðal Keflavíkurflugvelli.

„Helst finnum við nú fyrir að keðja aðfanga fyrir byggingarframkvæmdir er farin að hökta, sem gæti tafið fyrir uppbyggingu okkar. Olíuverð hefur einnig snarhækkað, en enn sem komið er hefur það ekki haft áhrif á fjölda flugfarþega. Horfur fyrir sumarið eru þannig enn vænlegar, en samsetning farþega gæti hins vegar tekið breytingum og mörg flugfélög meta nú hvort breyta eigi flugleiðum og verðlagningu.“

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að þeir fjármunir sem voru settir í beina markaðssetningu til flugfélaga hafi þegar skilað sér í endurheimt fjölda flugfélaga.Isavia

Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, tekur í sama streng og Orri og bendir á að tekjur Isavia Innanlandsflugvalla ehf., sem fer með rekstur á innanlandsflugvöllunum, komi að stærstum hluta úr þjónustusamningi við ríkið um rekstur þeirra.

„Kórónuveirufaraldurinn hefur haft mikil áhrif á reksturinn en íslenska ríkið, sem þjónustukaupandi, tók á sama tíma þá ákvörðun að draga ekki úr þjónustustigi í innanlandsflugvallakerfinu og mætti þeirri ákvörðun með sérstökum viðbótargreiðslum til félagsins til að mæta tekjufalli frá notendum. Staða innanlandsflugvallakerfisins er engu að síður alvarleg enda hefur það verið vanfjármagnað frá íslenska ríkinu um margra ára skeið,“ segir Sveinbjörn í ávarpi sínu í nýrri ársskýrslu félagsins.

Hluti af því sem hélt aftur af endurheimtinni voru þær sóttvarnaraðgerðir sem voru í gildi á landamærum Íslands. Þeim aðgerðum var hætt í febrúar síðastliðnum enda höfðu fyrirliggjandi gögn sýnt fram á að þær hafi ekki verið réttlætanlegar og valdið meiri skaða heldur en verið til gagns.

Þrátt fyrir að síðasta ári hafi áfram borið einkenni faraldursins þá mátti sjá skýr batamerki á rekstri flugvalla og flugleiðsögu frá árinu 2020, að sögn forstjórans, en rekstrarafkoma (EBIT) Isavia í fyrra var neikvæð um 4,7 milljarða borið saman við rekstrartap upp á rúmlega 10 milljarða árið á undan.

„Ef við horfum til dæmis til síðasta ársfjórðungs ársins 2020 þá fóru að meðaltali um 600 farþegar um Keflavíkurflugvöll á degi hverjum. Á sama tímabili á síðasta ári var þessi meðaltalstala komin í um 9.064 farþega á dag sem er um 58 prósent af daglega meðaltalinu á seinasta ársfjórðungi ársins 2019,“ segir Sveinbjörn.

Þá bendir hann á að flest flugfélögin sem flugu til Keflavíkurflugvallar fyrir faraldurinn hafi núna snúið aftur og útlit sé fyrir að fjöldi þeirra verði að minnsta kosti sá sami í sumar og hann var árið 2019.

„Þessi staða gerir það að verkum að við getum gert okkur væntingar um áframhaldandi árangur af endurheimtinni á komandi mánuðum og misserum. Hluti af því sem hélt aftur af endurheimtinni voru þær sóttvarnaraðgerðir sem voru í gildi á landamærum Íslands. Þeim aðgerðum var hætt í febrúar síðastliðnum enda höfðu fyrirliggjandi gögn sýnt fram á að þær hafi ekki verið réttlætanlegar og valdið meiri skaða heldur en verið til gagns. Það er ánægjulegt að stjórnvöld hafi þannig farið að horfa á heildarmyndina í sínum ákvörðunum og mikilvægt að það verið fyrirsjáanleiki í þeim til framtíðar.“

Sveinbjörn segir að á þessu ári stefni í „eitt stærsta framkvæmdaár í sögu flugvallarins“ og þá hefur félagið lagt til fjármuni í beina markaðssetningu til flugfélaga, sem hefur þegar skilað sér í endurheimt fjölda flugfélaga. Þetta sé lykilatriði þegar kemur að því að ná til baka þeim fjölda flugtenginga sem var til staðar á árunum fyrir faraldurinn.

Helst finnum við nú fyrir að keðja aðfanga fyrir byggingarframkvæmdir er farin að hökta, sem gæti tafið fyrir uppbyggingu okkar.

„Tengistöðin á Keflavíkurflugvelli er drifkrafturinn þegar kemur að flugtengingum og því þarf að tryggja að hún standi undir þeim tækifærum sem fylgja tengiflugfélögunum á Keflavíkurflugvelli. Það er bein fylgni milli fjölda flugtenginga og hagvaxtar, lífsgæða og velsældar á Íslandi,“ segir forstjóri Isavia.

Í þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem kom út í lok janúar á þessu ári, var því spáð að fjöldi ferðamanna á árinu 2022 yrði á bilinu 1,1 til 1,2 milljónir borið saman við um 700 þúsund sem komu til landsins á síðasta ári. Væntingar eru hins vegar núna um að ferðamannafjöldinn í ár geti orðið talsvert meiri en þær spár gera ráð fyrir.


Tengdar fréttir

Isavia tapaði 13,2 milljörðum króna í fyrra

Afkoma Isavia var neikvæð um 13,2 milljarða króna eftir skatta árið 2020. Er um að ræða 14,4 milljarða króna viðsnúningur frá fyrra ári. Tekjur drógust saman um 62% milli ára og námu 14,7 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×