Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bankasýslunni, þar sem áréttað er að við sölumeðferðina hafi ákvæðum laga verið „fylgt í hvívetna,“ þar með talið laga nr. 155/2012 um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Í samtali við fréttastofu ítrekaði Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, þessi sjónarmið og sagði fráleitt að halda því fram að söluferlið hefði verið í andstöðu við lög.
Í dag var greint frá því að Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale-háskóla og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabanka Íslands, teldi að lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum hefðu verið brotin við söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Sigríður sat í rannsóknarnefnd Alþingis sem fjallaði um bankahrunið 2008. Sagðist hún telja að 3. grein laganna og mögulega 2. grein hefðu verið brotnar.
Fyrr í dag gaf Ríkisendurskoðun það út að hún hefði fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um úttekt á söluferlinu, hverrar niðurstaða á að liggja fyrir í júní á þessu ári. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa í dag krafist þess að sett verði á fót rannsóknarnefnd Alþingis um málið, en þau sjónarmið virðast ekki njóta fylgis hjá meirihlutanum.