Í tilkynningu frá lögreglu segir að einn felguboltinn sem losnaði þegar dekkið fór undan bílnum hafi skollið á framrúðu bíls sem ók þar hjá og hafi framrúðan brotnað. Ökumenn hafi svo fyllt út tjónstilkynningu og Vaka sá um að fjarlægja bílinn.
Í dagbók lögreglu segir einnig frá því að klukkan hálf fjögur í nótt hafi lögregla stöðvað bíl á Suðurlandsvegi. Þar eru tveir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu. Eru mennirnir grunaðir um að hafa skipst á sætum þegar lögregla stöðvaði bílinn.
Um klukkan 17:30 í gær var tilkynnt um innbrot í geymslu fjölbýlishúss í Garðabæ. Þar var verkfærum og fleiri verðmætum stolið. Í nótt var svo einnig tilkynnt um innbrot í fyrirtæki í Hafnarfirði.
Skömmu fyrir klukkan 20 í gær var tilkynnt um slys í hverfi 110 í Reykjavík þar sem kona hafði kastast af hestbaki og lent á höfðinu. „Konan kenndi eymsla í hálsi og var hún flutt með sjúkrabifreið á Bráðadeild til aðhlynningar,“ segir í dagbók lögreglu.