Fótbolti

Varamarkvörður Ástrala tryggði sætið á HM í Katar

Atli Arason skrifar
Andrew Redmayne kom inn á völlinn fyrir Mathew Ryan á 121. mínútu leiksins og tryggði Ástralíu sæti á HM í Katar.
Andrew Redmayne kom inn á völlinn fyrir Mathew Ryan á 121. mínútu leiksins og tryggði Ástralíu sæti á HM í Katar. Getty Images

Ástralar verða með á HM í Katar í desember eftir sigur á Perú í vítaspyrnukeppni.

Það var fátt um fína drætti í leik liðanna. Mikil barátta á öllum svæðum vallarins en lítið um marktækifæri. Slavko Vinčić, dómari leiksins, var í raun sá sem hafði mest að gera í leiknum, að flauta á leikbrot víða um völlinn. Ajdin Hrustic, leikmaður Ástralíu átti hættulegasta marktækifærið í venjulegum leiktíma, á 88. mínútu, en inn vildi boltinn ekki og því þurfti að framlengja.

Það var meira af því sama í framlengingunni en Perú fékk tvö færi á tveggja mínúta kafla í síðari hálfleik framlengingar sem bæði fóru forgörðum.

Eftir að hvorugu liði tókst að skora á 120 mínútum varð að grípa til vítaspyrnukeppni. Mesta spennan í leiknum í kvöld var á þeim tímapunkti en það reyndist erfitt að útkljá sigurvegara í vítaspyrnukeppninni sem fór alla leið í bráðabana. Ástralar unnu vítaspyrnukeppnina 5-4.

Rétt fyrir vítaspyrnukeppnina gerðu Ástralar breytingu í markvarðarstöðunni. Matt Ryan fór af velli og varamarkvörðurinn Andrew Redmayne kom inn á. Redmayne reyndist happafengur en hann varði lokaspyrnu frá Alex Valera, leikmanni Perú, í bráðabana til að tryggja Ástralíu sæti á fimmta heimsmeistaramótinu í röð.

Ástralar fara í D-riðil á HM í Katar með Frakklandi, Danmörk og Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×