Þetta kemur fram í uppfærðum tölum fyrir júnímánuð sem Hagstofan birti í morgun.
Þar kemur fram að vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í júní 2022, er 547,1 stig (maí 1988=100) og hækkar um 1,41 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 455,1 stig og hækkar um 1,09 prósent frá maí.
Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 8,8 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,5 prósent.
Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 0,8 prósent (áhrif á vísitöluna 0,11 prósent), kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hækkaði um 2,9 prósent (0,56 prósent) og verð á bensíni og olíum hækkaði um 10,4 prósent (0,39 prósent).
Sjá má á vef Seðlabankans að verðbólga mældist síðast á svipuðum slóðum og nú í nóvember 2009, 8,6 prósent. Í október sama ár mældist hún 9,7 prósent.