Kristinn dæmdi í efstu deildum Íslands í mörg ár, ásamt því að vera mikils metinn á alþjóðlegum vettvangi. Eins og íslenskt knattspyrnuáhugafólk er farið að vita fékk Kristall Máni seinna gula spjaldið fyrir að sussa á stuðningsfólk Malmö eftir að hann jafnaði metin í 1-1.
„Með þessum hætti sem hann gerir þetta, að ögra áhorfendum Malmö, þá er það gert með óíþróttamannslegum hætti og það ber að refsa fyrir það með gulu spjaldi,“ sagði Kristinn í samtali við Stöð 2 í gær.
„Svona lagað getur skapað ýmsar hættur. Hann fer mjög nálægt áhorfendum og á þá í hættu að fá eitthvað í sig frá þeim. Og eins er hann líka að búa til einhvern múgæsing í stúkunni og það getur skapað einhverjar hættur fyrir áhorfendur líka.“
Margir eru á þeirri skoðun að fyrst að Kristall hafði þá þegar fengið að líta gula spjaldið þá hefði dómarinn getað sleppt því seinna og leyft honum að sleppa með tiltal. Kristinn segir hins vegar að það hafi ekki verið í boði.
„Það hefði verið jafn mikill mínus fyrir dómarann. Þetta er bara svo skýrt í knattspyrnulögunum og áherslum dómaranefndar að þegar er verið að ögra andstæðingnum með þessum hætti og sýna þessa háttsemi þá er skýrt í lögum og áherslum að það eigi að áminna leikmanninn. Þá telur ekkert hvað hefur gerst á undan.“