Sport

„Já, ég sagði 35 ára“

Sindri Sverrisson skrifar
Shelly-Ann Fraser-Pryce var í skýjunum eftir magnaðan sigur sinn í 100 metra hlaupi á HM í nótt.
Shelly-Ann Fraser-Pryce var í skýjunum eftir magnaðan sigur sinn í 100 metra hlaupi á HM í nótt. AP/Charlie Riedel

Shelly-Ann Fraser-Pryce gerði nokkuð sem engri manneskju hefur tekist þegar hún, 35 ára gömul, varð í nótt heimsmeistari í 100 metra hlaupi á HM í frjálsum íþróttum í Oregon í Bandaríkjunum.

Fraser-Pryce varð heimsmeistari í greininni í fimmta sinn á ferlinum, og í annað sinn frá því að hún varð móðir árið 2017. 

Engum hefur áður tekist að vinna fimm heimsmeistaratitla í sömu einstaklingsgrein í hlaupum en Fraser-Pryce stimplaði sig fyrst inn sem fljótasta kona heims þegar hún vann 100 metra hlaupið á HM árið 2009, fyrir þrettán árum.

Jamaíka átti alla þrjá verðlaunahafana í 100 metra hlaupinu í nótt því á eftir Fraser-Pryce, sem hljóp á 10,67 sekúndum og setti mótsmet, komu Shericka Jackson og Elaine Thompson-Herah og unnu silfur og brons.

„Mér finnst ég njóta blessunar að búa yfir þessum hæfileikum enn þegar ég er orðin 35 ára, búin að eiga barn og er enn að, og vonandi get ég orðið öðrum konum hvatning til að sjá hvað þær geta afrekað á sínu ferðalagi,“ sagði Fraser-Pryce.

„Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hversu oft ég hef lent í bakslagi og þurft að rísa upp aftur en enn og aftur næ ég hingað,“ bætti hún við en Fraser-Pryce hefur nú unnið samtals tíu heimsmeistaratitla, í 100 og 200 metra hlaupum og 4x100 metra boðhlaupi.

„Þessi heimsmeistaratitill er samt í uppáhaldi. Að ná þessu 35 ára. Já, ég sagði 35 ára,“ sagði Fraser-Pryce sem kvaðst engan áhuga hafa á að hætta að keppa á meðan að sér liði enn eins og hún gæti hlaupið hraðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×