Fótbolti

Víkingsbanar í Litháen og þrjú af fjórum Íslendingaliðum byrja á útivelli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sænska liðið Malmö fer til Litháen í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Sænska liðið Malmö fer til Litháen í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu. Vísir/Hulda Margrét

Önnur umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu hefst á morgun með sjö leikjum. Alls eru fjögur Íslendingalið sem verða í eldlínunni.

Drátturinn fór fram fyrir helgi, en þrjú af fjórum Íslendingaliðum hefja leik á útivelli.

Alfons Sampsted og félagar hans í norska meistaraliðinu Bodö/Glimt ferðast til Norður-Írlands þar sem liðið mætir Linfield á morgun. Síðari leikur liðanna fer svo fram á miðvikudaginn eftir rúma viku.

Þjálfarinn Miloš Milojević mætir með lærisveina sína í Malmö til Litháen þar sem liðið heimsækir Zalgiris annað kvöld. Eins og íslenskt knattspyrnuáhugafólk veit sló Malmö Íslandsmeistara Víkings úr leik í fyrstu umferð eftir samanlagðan 6-5 sigur í stórskemmtilegu einvígi.

Þá fer markvörðurinn Ögmundur Kristinsson með félögum sínum í gríska liðinu Olympiacos til Ísrael á miðvikudaginn þar sem heimamenn í Maccabi Haifa bíða þeirra.

Að lokum er eitt Íslendingalið sem hefur leik á heimavelli. Danska liðið Midtjylland með Elías Rafn Ólafsson innanborðs tekur á móti kýpverska liðinu AEK Larnaca í fyrri leik liðann á morgun.

Leikjaniðurröðunina í heild sinni í annarri umferð forkeppni Meistaradeildarinnar má sjá með því að smella hér.

Dráttur í þriðju umferð klár

Þá er einnig búið að raða upp leikjum í þriðju umferð forkeppninnar og því hægt að velta því fyrir sér hvað gæti gerst ef Íslendingaliðin vinna.

Danska liðið Midtjylland á líklega erfiðasta verkefnið fyrir höndum af öllum Íslendingaliðunum ef vinna sína viðureign gegn AEK Larnaca, en sigurliðið úr því einvígi mætir portúgalska liðinu Benfica í þriðju umferð.

Ögmundur Kristinsson og félagar þyrftu að fara í stutt ferðalag til Kýpur þar sem Apollon yrði þeirra næsti andstæðingur.

Að lokum er svo líklegt að Malmö og Bodö/Glimt mætist í þriðju umferð, en þá þarf Malmö að sigra Zalgiris og Bodö/Glimt að hafa betur gegn Linfield.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×