„Ég held ég geti verið ánægð með mitt og gengið stolt frá því en að sama skapi er ég svekkt að það hafi ekki skilað okkur lengra,“ sagði Sandra um eigin frammistöðu en markvörðurinn hefur verið jafnbesti leikmaður Íslands á mótinu.
Frakkland skoraði á fyrstu mínútu leiksins
„Það var smá skellur, ég viðurkenni það. Við vissum að þær hafa byrjað leikina á mótinu mjög aggressíft en þetta var blaut tuska í andlitið. Mér fannst við samt ekki brotna við þetta. Við héldum haus, unnum okkur inn í leikinn og gerðum þetta vel.“
„Ég trúði því alltaf. Mér fannst við vinna á og sýndum ótrúlega seiglu, baráttu allar þessar 90 plús mínútur í dag. Við reyndum og gáfum allt sem við áttum í þetta. Við skildum allt eftir út á vellinum en svona getur þetta verið, það er stutt á milli svo já þetta er súrt,“ sagði Sandra um trúnna á að Ísland gæti sótt sigur.
„Að við klárum ekki færin sem við fáum, það skilur á milli. Við fengum virkilega góð færiá mótinu. Við spiluðum varnarleikinn mjög vel, eitt mark á sig í hverjum leik er ekkert hræðilegt. Við fáum tækifæri til að vinna í öllum leikjunum og það svíður en svona er fótboltinn. Ég er ótrúlega stolt af liðinu þó ég sé svekkt í leiðinni,“ sagði Sandra um hvað hefði betur mátt fara.
„Að sjálfsögðu, hvergi nærri hætt,“ sagði markvörðurinn að endingu er hún var spurð hvort við myndum sjá Söndru á HM næsta sumar fari svo að Ísland komist þangað.