Sport

Einstakt afrek á hlaupabrautinni

Sindri Sverrisson skrifar
Shericka Jackson fagnar heimsmeistaratitlinum í 200 metra hlaupi á Hayward Field vellinum í Eugene í Oregon.
Shericka Jackson fagnar heimsmeistaratitlinum í 200 metra hlaupi á Hayward Field vellinum í Eugene í Oregon. Getty/Carmen Mandato

Hin jamaíska Shericka Jackson varð í nótt heimsmeistari í frábæru 200 metra hlaupi á HM í frjálsum íþróttum í Eugene í Bandaríkjunum. Hún hjó nærri heimsmeti.

Með sigri sínum í nótt og silfurverðlaununum í 100 metra hlaupi er Jackson nú fyrst allra, kvenna og karla, til að vinna verðlaun á HM í 100, 200 og 400 metra hlaupi á ferlinum. Hún sérhæfði sig áður í 400 metra hlaupi og vann brons í greininni á HM 2015 og 2019.

Í 200 metra hlaupinu í nótt kom Jackson í mark á 21,45 sekúndum sem er næstbesti tími sögunnar. Það er aðeins 11/100 úr sekúndu frá heimsmeti Florence Griffith-Joyner frá því á Ólympíuleikunum árið 1988.

Shelly-Ann Fraser-Pryce, heimsmeistari í 100 metra hlaupi, bætti rós í hnappagat sitt með því að vinna silfur í 200 metra hlaupinu og kom í mark á 21,81 sekúndum. Dina Asher-Smith frá Bretlandi vann brons á 22,02 sekúndum.

Í úrslitum 200 metra hlaups karla unnu Bandaríkjamenn öll þrenn verðlaunin. Noah Lyles varð heimsmeistari á 19,31 sekúndum en Kenneth Bednarek varð í 2. sæti á 19,77 sekúndum, aðeins 3/100 úr sekúndu á undan Erriyon Knighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×