Búist er við gífurlegri úrkomu víða undir Eyjafjöllum og á sunnanverðum jöklum á svæðinu og Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland, Suðausturland og miðhálendi vegna mikillar rigningar. Fram kemur á vef Vegagerðarinnar að hún verði með eftirlit með brúm og vegum á hringveginum vegna þessa.
Unnið er að smíði nýrrar brúar við Jökulsá á Sólheimasandi og á meðan er umferð beint um hjáleið og bráðabirgðabrú. Í gær hóf Vegagerðin að dýpka farveginn undir brúnni og undirbúa aðrar aðgerðir með það að markmiði að verja bráðabirgðabrúna. Komi til þess að bráðabirgðabrúnni sé hætta búin verður umferð á Hringvegi um Jökulsá á Sólheimasandi fyrir austan Skóga hleypt á nýju brúna sem er ekki fullgerð.
Vegagerðin og Veðurstofan benda vegfarendum sem eiga leið um óbrúaðar ár á að endurskoða ferðaáætlanir sínar þar sem líklegt sé að þær verði mjög erfiðar yfirferðar eða ófærar með öllu.
Viðvörun: Í dag 27. júlí spáir mikilli rigningu og má því búast við að hálendisvegir lokist. Einnig má búast við miklum vatnavöxtum á sunnanverðu landinu þá aðallega undir Eyjafjöllum og í Mýrdal. #færðin
— Vegagerðin | Iceland Roads (@Vegagerdin) July 27, 2022