Handbolti

Íslendingaslagur í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fer með nýja liðinu sínu, HBC Nantes, til Póllands þar sem liðið heimsækir Hauk Þrastarson og félaga hans í Lomza Industria Kielce.
Viktor Gísli Hallgrímsson fer með nýja liðinu sínu, HBC Nantes, til Póllands þar sem liðið heimsækir Hauk Þrastarson og félaga hans í Lomza Industria Kielce. Uros Hocevar/Kolektiff Images/DeFodi Images via Getty Images

Evrópska handknattleikssambandið EHF birti í dag leikjaniðurröðun riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta. Nokkrar áhugaverðar viðureignir munu eiga sér stað strax í fyrstu umferð, þar á meðal Íslendingaslagur Lomza Industria Kielce og HBC Nantes.

Fyrsta umferðin verður leikin um miðjan september, nánar tiltekið dagana 14. og 15. september.

Íslendingaslagur Kielce og Nantes fer fram fyrri daginn. Haukur Þrastarson leikur með Kielce og Viktor Gísli Hallgrímsson gegnur til liðs við Nantes fyrir tímabilið. Því er ljóst að tveir af framtíðarmönnum íslenska landsliðsins munu etja kappi strax í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar.

Haukur og Viktor eru þó langt frá því að vera einu Íslendingarnir sem taka þátt í Meistaradeildinni í ár. Orri Freyr Þorkelson og félagar hans í norska liðinu Elverum leika gegn Þýska liðinu Kiel í fyrstu umferð þann 14. september og degi síðar eru þrjú Íslendingalið í eldlínunni.

Ómar Ingi Magnússon, Gísli Þorgeir Kristjánsson og félagar þeirra í Magdeburg fara til Rúmeníu þar sem þeir heimsækja CS Dinamo Bucuresti, Bjarki Már Elísson og félagar hans í ungverska liðinu Telekom Veszprém HC taka á móti franska stórliðinu Paris Saint-Germain og Aron Pálmarsson og félagar hans í danska liðinu Aalborg Handbold taka á móti RK Celje Pivovarna Lasko frá Slóveníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×