Rétt eins og í fyrri grein dagsins varð íslenska liðið í öðru sæti í annarri greininni. Greinin sneri að mestu um ketilbjöllur en íslenska liðið kláraði á 21 mínútu og 56,01 sekúndu. Þá var það einnig svo að bandaríska liðið Mayhem Freedom varð fyrst í mark, líkt og fyrr í dag, en það kláraði á 20:54,33.
Mayhem Freedom leiðir keppnina með 752 stig en Oslo Navy Blue frá Noregi er annað með 704 stig. Invictus frá Bandaríkjunum er í þriðja sæti með 692 stig en Reykjavíkurliðið er með 674 stig í því fjórða og nálgast þriðja sætið.
Toomey áfram í forystu en bilið minnkar lítillega
Önnur grein dagsins í einstaklingskeppninni var svokölluð þrenna (e. hat-trick). Þar voru þrjár umferðir af þremur greinum; spretti, 20 boltaskotum í vegg og sex ketilbjöllu lyftur (e. snatch).
Sólveig Sigurðardóttir var fljótari til að klára af íslensku konunum en hún kláraði greinina á fjórum mínútum og 59,31 sekúndum. Þuríður Erla Helgadóttir kláraði aftur á móti á fimm mínútum og 1,97 sekúndum. Sólveg var 26. í mark en Þuríður 28.
Ellie Turner frá Ástralíu var fyrst að klára á þremur mínútum og 55,94 sekúndum en hún er 23. í heildarkeppninni. Tia Toomey varð þriðja en hún er sem fyrr með forystuna en Mallory O'Brien varð önnur og er í öðru sæti.
Björgvin Karl fimmtándi
Björgvin Karl Guðmundsson varð fimmtándi í þrennunni í karlaflokki. Hann kláraði greinina á fjórum mínútum og 19,68 sekúndum.
Brassinn Guilherme Malheiros var fyrstur á þremur mínútum og 44,18 sekúndum. Justin Medeiros varð annar, en hann er annar í heildarkeppninni og minnkaði því bilið í Ricky Garard sem leiðir, en Garard varð tólfti.
Roman Khrennikov frá Rússlandi er sem fyrr þriðji í keppni karla en hann varð sjöundi í greininni.