Með kastinu kom Hilmar sér inn í úrslit á EM, fyrstur Íslendinga í sleggjukasti á stórmóti, og varð hann sjöundi inn í úrslitin. Þau fara fram snemma kvölds á morgun.
Í viðtali við RÚV strax eftir árangurinn í München í dag kvaðst Hilmar ekki hafa komið sjálfum sér á óvart, þó að um væri að ræða besta kast hans á árinu.
„Ég vissi að ég myndi gera þetta. Ég var eiginlega búinn að vita það í allan morgun og þurfti bara að framkvæma það. Ég er ánægður en ekki hissa,“ sagði Hilmar í samtali við RÚV. Hann vann sig inn í úrslitin með þriðja og síðasta kasti sínu í morgun.
Hér er kastið sem skilaði Hilmari í úrslit. Sætið hans í úrslitum er orðið endanlega staðfest. Nú er bara að vona það sama hjá Guðna Val í kringlukastinu á eftir. https://t.co/YtVxWZRzlI
— Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson (@thorkellg) August 17, 2022
„Ég byrjaði frekar illa, á ekkert spes kast, en fann samt að það var nóg inni í því. Svo fór ég og talaði aðeins við þjálfarann minn, við fórum yfir málin, og ég þurfti bara að framkvæma betri köst. Ég reyndi það í annarri og þriðju tilraun og sú þriðja fór lengst,“ sagði Hilmar sem kvaðst strax hafa fundið það að þriðja og síðasta kastið hans myndi duga til að komast í úrslit:
„Já, ég held það. Þetta var létt kast og þægilegt, sem eru yfirleitt bestu köstin, og það bara flaug.“