Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi greiða framkvæmdastjóra sínum hæstu mánaðarlaunin af þeim hagsmunasamtökum sem Frjáls verslun ber saman í nýju tekjublaði eða um 3,9 á mánuði.
Talsmenn atvinnulífsins með um fjórar milljónir
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins eru með svipaðar mánaðartekjur eða um 3,8 milljónir króna.
Í Tekjublaði Frjálsrar verslunar kemur fram að um sé að ræða útsvarsskyldar tekjur á síðasta ári. Skattfrjálsir dagpeningar, bílastyrkir og greiðslur í lífeyrissjóði séu hins vegar ekki inn í þessum tölum
Forusta verkalýðsfélaga á lægri launum
Sá forystumaður í verkalýðs-eða stéttarfélögum sem kemst næst þessum launum er með ríflega tvöfalt lægri mánaðarlaun en það er formaður félags skipstjórnarmanna sem hefur um 1,8 milljón króna í mánaðarlaun.
Formaður VR er einnig með um 1,8 milljón króna á mánuði. Formaður Samiðnar er með svipuð laun. Formaður Rafiðnaðarsambandsins og formaður Sjómannasambandsins eru með um 1,6 milljónir á mánuði.
Formaður Eflingar var með tæplega ellefu hundruð þúsund í tekjur á mánuði í fyrra en hún lét að störfum í október það ár.
Það eru þessir aðilar sem mætast meðal annars við næstu kjarasamninga nú í haust.
Ekki tímabært að tjá sig um svigrúm til launahækkana
Í fréttum okkar í gær kom fram hjá Stefáni Ólafssyni sérfræðingi hjá Eflingu að í komandi kjaraviðræðum yrði svigrúm til 13,8 prósenta hækkunar á lægstu launum. Þá benti hann á að verðbólga stýri ekki svigrúmi til launahækkana.
„Við erum að benda á það að það sem öllu máli skiptir fyrir svigrúm er annars vegar hagvöxturinn og hins vegar framleiðniaukningin, hvoru tveggja er í góðu standi á Íslandi. Fimm prósent hagvöxtur og tvö prósent framleiðniaukning sem á að skila sér í kaupmáttaraukningu alveg óháð verðbólgu,“ sagði Stefán Ólafsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vildi ekki tjá sig um þessi ummæli þegar fréttastofa bar þau undir hann í morgun. Verkalýðshreyfingin sé ekki komin fram með kröfugerð og því ekki tímabært að tjá sig.